15 erlendir höfundar á leiðinni

Bókmenntahátíð í Reykjavík verður haldin 9.-12. september í Norræna húsinu og Iðnó. Von er á 15 erlendum höfundum og 17 íslenskir höfundar taka jafnframt þátt auk fjölmargra útgefenda og umboðsmanna sem koma víðsvegar að.

Dagskráin fer fram í Norræna húsinu og Iðnó þar sem 2-3 höfundar koma saman hverju sinni ásamt spyrli, lesa úr verkum sínum og ræða verk sín og málefni sem þeim tengjast.

Samkvæmt tilkynningu frá Bókmenntahátíðar í Reykjavík vill svo skemmtilega til að bækur fjölmargra erlendu höfundanna sem sækja hátíðina heim eru að koma út í íslenskri þýðingu nú á haustdögum. Bókaforlagið Dimma mun gefa út örsögur hinnar argentínsku Önu Maríu Shua í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur. Nýjasta bók sænska höfundarins, Danny Wattins, Herr Isakowit‘z Treasure kemur út í september í íslenskra þýðingu hjá Forlaginu. Bókin Þúsund og einn hnífur eftir írakska höfundinn Hassan Blasim kemur út hjá Forlaginu í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar. Hjá sama forlagi kemur út bókin Ljósmóðirin eftir hina finnsku Katju Kettu í þýðingu Sigurðar Karlssonar. Nýverið kom út hjá Forlaginu þýðing Friðriks Rafnssonar á bókinni Alex eftir franska rithöfundinn Pierre Lemaitre.

Þar að auki hafa eftirfarandi bækur þegar komið út: Í leyfisleysi eftir Lenu Andersson í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Bókin Hvað er þetta Hvað? eftir Dave Eggers í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Bækurnar Við og Einn dagur eftir hinn breska David Nicholls í þýðingu Arnars Matthíassonar. Mamma segir heitir bók eftir Stine Pilgaard sem Steinunn Stefánsdóttir hefur þýtt. Að lokum má nefna bókina Aftur á kreik eftir Timur Vermes sem Bjarni Jónsson þýddi.

„Það er mikill fengur fyrir íslenska lesendur að fá allar þessar bækur á íslensku og fá jafnframt tækifæri til að hitta höfunda þeirra á Bókmenntahátíð. Líkt og á fyrir hátíðum gefst kostur á að kaupa bækurnar (líka á öðrum tungumálum en íslensku) í Iðnó og Norræna húsinu og jafnvel fá áritun frá höfundunum,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert