Tekist á um kvöldfund

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnarandstaðan mótmælti við upphaf Alþingis í dag tillögu Einars K. Guðfinnssonar, forseta þingsins, að þingfundur gæti staðið lengur í dag en þingsköp gerðu ráð fyrir. Sögðu stjórnarandstæðingar ástæðuna vera þá að umræður um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og flytja verkefni hennar til utanríkisráðuneytsins hefði tekið langan tíma og gagnrýndu þeir þau áform harðlega.

„Við vorum hér til miðnættis í gær og það er viðbúið að á morgun verði langur dagur og fundur áfram á föstudaginn. Þannig að kvöld- eða næturfundur á miðvikudegi er ekkert sérstaklega skynsamleg ráðstöfun, held ég, og ekki þörf á því. Sérstaklega ekki ef tilgangurinn er aðallega að halda áfram með frumvarpsræsknið um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun,“ sagði til að mynda Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokkurinn, benti á að niðurlagning Þróunarsamvinnustofnunar nyti meirihlutastuðnings á Alþingi og að umræður um málið hefðu tekið langan tíma vegna stjórnarandstöðunnar. Henni væri velkomið að halda áfram að ræða um málið við sjálfa sig. Hann ætlaði ekki að stöðva hana í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert