Nox Medical hlaut útflutningsverðlaunin

Frá verðlaunaafhendingunni í dag: Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, …
Frá verðlaunaafhendingunni í dag: Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, Helgi Tómasson listdansstjóri og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert

Tækni- og hugvitsfyrirtækið Nox Medical hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands þegar verðlaunin voru veitt í 28 skipti. Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical veitti verðlaununum móttöku við hátíðalega athöfn á Bessastöðum. Helgi Tómasson listdansstjóri fékk sérstaka heiðursviðurkenningu af þessu sama tilefni, en viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og með því stuðlað að jákvæðu umtali um landið og íslensku þjóðina.

Fram kemur í fréttatilkynningi að Nox Medical fái verðlaunin fyrir að hafa náð einstökum árangri á heimsvísu í þróun og smíði á lækningavörum sem notaðar séu til greiningar á svefntruflunum. „Fyrirtækið var stofnað árið 2006 og fagnar því um þessar mundir 10 ára afmæli. Stofnendur Nox Medical eru sex verkfræðingar og einn tölvunarfræðingur sem höfðu áður starfað við hönnun lækningavara hjá fyrirtækinu Flögu sem flutti starfsemi sína frá Íslandi í lok árs 2005. Í dag starfa tæplega 50 manns hjá Nox Medical. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum náð sterkri fótfestu fyrir vörur sínar, en helstu markaðir þess eru í Evrópu, og Norður-Ameríku.“

Ennfremur segir að frá stofnun hafi Nox Medical unnið með sér­fræðing­um Land­spít­ala á sviði svefn­rann­sókna við þróun og próf­an­ir þess búnaðar sem Nox fram­leiðir. „Starfsemi fyrirtækisins hefur skilað hagnaði frá því að fyrsta vara þess, Nox T3, var sett á markað árið 2009. Um var að ræða lækningatæki til svefnrannsókna sem var bæði öflugra og nákvæmara en sá búnaður sem fyrir var á markaðnum, auk þess að vera smærri og þægilegri í notkun fyrir sjúklinga.  Nox T3 var hannað sérstaklega til greiningar á svefntruflunm hjá börnum þó notkun þess sé lang algengust meðal fullorðinna.“

Þá hafi fyrirtækið sett nýtt lækningatæki til svefngreininga á markað árið 2013 undir heitinu Nox A1. Það tæki sé notað til flóknari mælinga sem alla jafna séu framkvæmdar inni á sjúkrastofnunum en þetta nýja lækningatæki geri jafnframt mögulegt að framkvæma slíkar mælingar í heimahúsum. Fjallað er einnig um Helga Tómasson, feril hans og framlag til ímyndar Íslands og íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi.

„Helgi Tómasson er einn virtasti dansfrömuður heims, og hefur vakið athygli sem bæði dansari, listdansstjóri og danshöfundur í yfir fjörtíu ár. Í fyrstu alþjóðlegu balletkeppninni sem haldin var í Moskvu árið 1969 hafnaði Helgi í öðru sæti á eftir Mikhail Baryshnikov. Fljótlega eftir þetta var Helgi ráðinn til New York City Ballet þar sem hann dansaði við frábæran orðstír í hálfan annan áratug. Árið 1985 lagði Helgi ballettskóna á hilluna og réð sig í stöðu  listræns stjórnanda San Francisco-ballettsins, elsta starfandi listdansflokks Bandaríkjanna, þar sem hann hefur starfað allar götur síðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert