17 tíma seinkun á flugi til Dublinar

Vél WOW air, sem fljúga átti frá Keflavíkurflugvelli til Dublinar á Írlandi klukkan 6:15 í morgun, seinkar um tæpar 17 klukkustundir. Er áætlað að vélin leggi af stað klukkan 23 í kvöld. Farþegar voru komnir um borð í vélina í morgun áður en tilkynnt var um að seinkun yrði.

„Við vorum öll komin út í vél. Svo biðum við í 40 mínútur úti í vél áður en okkur var sagt að fara út úr henni. Fyrstu upplýsingar áttu að koma klukkan 8:30, svo 9:30 og svo klukkan 11:30. Áætluð brottför var sett klukkan 13:40 en 20 mínútum seinna var okkur sagt að brottför yrði klukkan 23 í kvöld,“ segir farþegi í vélinni í samtali við mbl.is.

„Fólk er ekki mjög hresst, það var frekar lítið um upplýsingar. Síðan var sagt að brottför yrði klukkan 23 í kvöld og liðið alveg trompaðist,“ segir farþeginn.

Stendur fólki til boða að fara upp á hótel þangað til. „Verið er að bjóða okkur að fara upp á hótel en fólk hérna er ekkert hresst. Það er fólk hér að koma frá San Francisco, búið að ferðast yfir hálfan hnöttinn og lendir svo í þessu,“ segir farþeginn.

Uppfært klukkan 12:27:

Farþegunum var svo bent á að sækja farangur sinn á færiböndunum. Þegar þeir höfðu beðið eftir töskunum í dágóða stund fengust þær upplýsingar að þeir myndu ekki fá töskurnar. Þetta segir farþegi sem var um borð í vélinni.

Eru farþegarnir nú á leið upp á hótel. Ástæðan fyrir seinkuninni sem farþegum var gefin var bilun í vélinni. 

Uppfært klukkan 13:54:

Flugi vélarinnar heim aftur til Íslands frá Dublin seinkar einnig. Farþegar á flugvellinum í Dublin innrituðu sig í dag en fengu síðan þær upplýsingar að flugi þeirra muni seinka. Hafa þeir fengið tölvupóst þar sem upplýst er um að þeir fái flug heim klukkan 03:20 að staðartíma í nótt, auk 8 evra í matarkostnað. Þessu greinir farþegi í fluginu frá í samtali við mbl.is.

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa WOW air við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert