Tíu teknir fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur

mbl.is/Þórður

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af tíu ökumönnum í gærkvöldi og nótt vegna gruns um ölvun eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Einn var handtekinn í Austurborginni um tvöleytið í nótt grunaður um þjófnað, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, fyrir að aka sviptur ökuréttindum og fyrir akstur á móti rauðu ljósi.  Tilkynnt hafði verið um manninn við mannlaust hús á Seltjarnarnesi.

Afskipti voru höfð af ökumanni í Breiðholtinu um eittleytið í nótt vegna gruns um ölvunarakstur. Þá var bifreið stöðvuð á Kringlumýrarbraut um hálfþrjúleytið og var ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Bifreið var einnig stöðvuð við Hamraborg í Kópavogi vegna gruns um ölvunarakstur, sá bílstjóri á einnig yfir höfði sér kærur fyrir ítrekuð brot  þar sem hann hafði þegar verið sviptur ökuréttindum.

Þá voru bílar stöðvaðir á Hverfisgötu, Rofabæ og Bústaðavegi í nótt þar sem ökumenn voru ýmist grunaðir um ölvun eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Loks hafði bifreið verið stöðvuð á Elliðavatnsvegi um fimmleytið í gærdag. Bílstjórinn var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökuréttindum, annar var svo stöðvaður á Kjósarskarðsvegi um hálfellefu vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, sem og fyrir vörslu fíkniefna.

Einnig var  tilkynnt um bílveltu við Elliðavatnsveg um sexleytið í gærdag. Sjúkrabifreið var send á vettvang, en ekki vitað um meiðsl.  Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert