Skaðabótaskyldan alfarið hjá leyfishöfum

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Golli

Komi til umhverfisslysa í tengslum við borun tilraunahola á Drekasvæðinu er leyfishafi alfarið skaðabótaskyldur fyrir hvers konar tjóni sem stafar af þeirri starfsemi. Þetta kemur meðal annars fram í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við skriflegri fyrirspurn Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar.

Óttarr spurði hvort íslenska ríkið hefði fjárhagslegt bolmagn til þess að leggja út fyrir aðgerðum ef stór leki eða annars konar umhverfisslys yrði við leit og borun tilraunaborholu. Enn fremur hvort ríkið hefði tryggt að það gæti sótt þann kostnað sem af skaðanum kynni að hljótast til leyfishafa. Ráðherrann vísar í þessu sambandi til kolvetnislaga og rannsóknar- og vinnsluleyfa. Orkustofnun og íslenska ríkið væru alfarið skaðlaus af öllum bótaskyldum.

„Verði af borun rannsóknarholu er gert ráð fyrir því að í leyfum verði kveðið á um skyldur leyfishafa til að hafa til reiðu viðeigandi búnað og áætlanir til að bregðast við leka eða annars konar umhverfisóhöppum. Ekki er því gert ráð fyrir að umtalsverður kostnaður lendi á íslenska ríkinu verði óhapp en komi slíkt til verður slíkur kostnaður endurheimtur af leyfishöfum og/eða tryggingarfélögum í samræmi við framanritað,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert