Láni þeim sem aðrir lána ekki

Frumvarp sem snýr að hlutverki Íbúðalánasjóðs á húsnæðismarkaði til framtíðar hefur verið lagt fram á Alþingi af Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Fram kemur í fréttatilkynningu að aukin áhersla sé þar lögð á stefnumótun og áætlanagerð og ákvæði um skyldu sveitarfélaga til að aðstoða þá sem erfitt eigi með að afla sér húsnæðis skýrð.

Frumvarpið felur meðal annars í sér að heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga verði takmarkaðar við sértæk lán á félagslegum forsendum eða vegna markaðsbrests. „Lán til einstaklinga verða einskorðuð við þá sem ekki eiga kost á fasteignalánum á ásættanlegum kjörum hjá öðrum lánastofnunum svo sem vegna staðsetningar fasteignarinnar eða af öðrum ástæðum.“

Hvorki verða gerðar breytingar á gildandi ákvæðum um hámarkslán og hámarksverð fasteigna né um greiðslugetu lántaka og veðhæfi fasteignar. „Íbúðalánasjóður mun áfram veita lán til leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og til sveitarfélaga, s.s. vegna húsnæðis fyrir fatlað fólk, aldraða, öryrkja, námsmenn og vegna hjúkrunarheimila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert