Miðað við gamalt markaðsverð

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra á fundi með ráðamönnum í Nígeríu.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra á fundi með ráðamönnum í Nígeríu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Vinnureglur tollayfirvalda í Nígeríu hafa komið illa við íslenska fiskútflytjendur samkvæmt fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Ástæða þess hafi verið sú að undanfarin misseri hafi verið notast við gamalt viðmiðunarverð sem verið hafi allt að 40% hærra en markaðsverð á vörunum. Fyrir vikið hafi lagst of hár tollur á vöruna.

Ennfremur segir að í kjölfar funda íslenskrar sendinefndar undir forystu Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra með ráðamönnum í Nígeríu hafi tollayfirvöld tilkynnt að reglurnar verði teknar til endurskoðunar svo þær endurspegluðu betur markaðsverð á hverjum tíma. Unnið verði að úrlausn málsins með samtökum skreiðarinnflytjenda í Nígeríu.

„Þetta eru góðar fréttir fyrir þær ríflega 20 íslensku fiskvinnslur sem selja þurrkaðar fiskafurðir hingað til Nígeríu. Það er sanngirnismál að varan sé rétt verð- og tolllögð, bæði fyrir seljendur og kaupendur, og ég fagna þeim góðu viðbrögðum sem við höfum fengið við okkar málaleitan. Málinu er langt frá því lokið, en hér eru stigin mikilvæg skref,“ er haft eftir Lilju sem stödd er í Nígeríu en heimsókn hennar lýkur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert