Ofbeldisbrotum fjölgaði milli ára

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Margvísleg verkefni komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2015, en í nýútkominni ársskýrslu embættisins kemur m.a. fram að skráð hegningarlagabrot í umdæminu hafi verið rúmlega 9.000, um 25 slík brot að jafnaði á degi hverjum.

Ofbeldisbrotum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu árið 2015 og bárust embættinu á annað þúsund tilkynningar um líkamsárásir. Þannig voru meiri háttar líkamsárásir um 150 talsins, sem er ámóta og árið á undan. Minni háttar líkamsárásum fjölgaði hins vegar mikið og fóru þær úr rétt innan við 700 árið 2014 í um 1.000. Þessi breyting á milli ára er sögð skýrast í breyttu verklagi lögreglu í heimilisofbeldismálum og skráningu þeirra brota hjá embættinu. Þá er hátt hlutfall ofbeldisbrota framið í miðborginni, aðallega að kvöld- og næturlagi um helgar. „Við þessu vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sporna,“ segir í ársskýrslu embættisins.

Eggvopn notuð í báðum málum

Tvö morð voru framin á höfuðborgarsvæðinu 2015. Hið fyrra átti sér stað í vesturbæ Hafnarfjarðar um miðjan febrúar. Fannst þar karlmaður um fertugt látinn í kjallaraíbúð og voru stungusár á líkinu. Gerandinn, kona á sextugsaldri, var handtekinn á staðnum og síðar dæmdur í 16 ára fangelsi. 

Hitt morðið var framið seinni hlutann í október, en þá var tilkynnt um alvarlega líkamsárás í húsi við Miklubraut. Hinn látni, karlmaður um sextugt, var myrtur með eggvopni. Gerandinn, karlmaður á fertugsaldri, var handtekinn á vettvangi og síðar metinn ósakhæfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert