Almenningur komi að forgangsröðun fjármagns

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata (t.h.).
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata (t.h.). mbl.is/Eggert

Nýta þarf tæknileg tækifæri eins og gefa almenningi kost á að hafa bein áhrif á forgangsröðun fjármagns til að stemma stigu við lækkandi kosningaþátttöku og áhugaleysi á stjórnmálum, að mati Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Þingmaður Sjálfstæðisflokks telur hættu á að áhugaleysi aukist því oftar sem fólk er kallað að kjörborðinu. 

Helgi Hrafn vakti máls á að lækkandi kosningaþátttaka hafi verið áhyggjuefni í ýmsum nágrannalöndum Íslands í nokkurn tíma í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar í dag. Algengasta skýringin sem hann hafi heyrt frá sérfræðingum væri einfaldlega áhugaleysi fólks á stjórnmálum og kosningum.

Sjálfur sagðist Helgi Hrafn telja að eitt af því sem gerði það að verkum að fólk missti trú á stjórnmálum og jafnvel lýðræði í kjölfarið væri að það upplifði ekki að skoðanir þess eða atkvæði skipti máli. Gefa ætti kjósendum tækifæri til að hafa meiri bein áhrif til að vinna gegn þessu, þar á meðal með hugmyndum um hvernig almenningur gæti forgangsraðað fjármagni.

„Það er til tækni í dag til þess að leyfa fólki að hafa einhver áhrif á þetta. Ekki öll áhrif. Ég er ekki að leggja til að fjárlög verði í höndum almennings. Ég er bara að segja að það eru leiðir til þess að efla beina þátttöku almennings að ákvarðanatöku í dag. Við höfum aldrei haft betri og fleiri tækifæri til þess og við eigum að nýta þau tækifæri frekar en að leyfa þessari vondu þróun að halda áfram mikið lengur,“ sagði Helgi Hrafn.

Meira beint lýðræði ekki endilega svarið

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði umræðuna sem Helgi Hrafn hóf athyglisverða. Ákveðin hættumerki væri um að þróun væri til lækkandi kosningaþátttöku hér á landi. Til skemmri tíma litið væri það hlutverk stjórnmálamanna að hvetja fólk til að nýta kosningarétt sinn og til stjórnmálaþátttöku. Til lengri tíma þyrftu menn vafalaust að velta fyrir sér stærri breytingum.

„Ég er hins vegar ekki alveg viss um að fleiri kosningar eða aukin krafa um það að þjóðin gangi að kjörborðinu um hin og þessi mál sé leiðin til að bregðast við þessu því hættan er auðvitað sú að því oftar sem fólk er kallað að kjörborðinu þeim mun áhugaminna verður það þegar til lengri tíma er litið,“ sagði Birgir.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert