Hótaði að börnin ælust upp móðurlaus

Maðurinn var handtekinn eftir að hann veittist að fyrrverandi konu …
Maðurinn var handtekinn eftir að hann veittist að fyrrverandi konu sinni og reyndi að taka af henni tveggja ára dreng þeirra. mbl.is/Eggert

Hæstiréttur hefur gert karlmanni að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að honum verður bannað að koma á, eða vera í námunda við, lögheimili barnsmóður sinnar og fyrrverandi maka. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður komist að sömu niðurstöðu.

Maðurinn hafði áreitt konuna og börn hennar um langt skeið, m.a. hótaði hann því að börn hennar ælust upp móðurlaus og hann myndi taka ungt barn þeirra ef hann fengi ekki að sjá það. Þá sendi hann henni smáskilaboð þar sem hann kvaðst myndu sjá hana fljótlega og óttaðist konan að hann myndi koma til hennar.

18. september barst lögreglu tilkynning um að maðurinn hefði ráðist á fyrrverandi konu sína og börn hennar. Konan sem varð fyrir árásinni og vitni sögðu hann hafa reynt að taka tveggja ára gamlan son þeirra upp úr kerru. Konan hafi náð drengnum til sín en maðurinn ýtti henni með þeim afleiðingum að hún féll með drenginn í fanginu. Maðurinn var ölvaður og handtók lögregla hann. 

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

 Maðurinn neitaði því að hafa hótað konunni áður eða lagt á hana hendur við skýrslutökur hjá lögreglu. Sagðist hann hafa verið drukkinn og ekki munað eftir atvikum.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hefði hótað barnsmóður sinni lífláti og nauðgunum og hún hafi óttast hann mjög. Þá hafi hann gengið í skrokk á konunni og tvítugum syni hennar auk þess sem hann hafði beitt ofbeldi fyrir framan ellefu ára gamlan son konunnar sem óttaðist manninn mjög.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað nálgunarbann yfir manninum hinn 19. september sl. og var ákvörðunin rökstudd með því að rökstuddur grunur sé um refsiverð afbrot mannsins gegn konunni, einkum alvarlegar hótanir, ógnandi hegðan og ærumeiðingar. 

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert