Bleiksmýri á Reykjanesi ber aftur nafn með rentu

Bleiksmýri á Reykjanesi ber aftur nafn með rentu.
Bleiksmýri á Reykjanesi ber aftur nafn með rentu.

Hafnarfjarðarbær er að endurheimta votlendi í Bleiksmýri, austan við Arnarfell í Krýsuvík.

Votlendið verður í kringum 50 hektarar (0,5 km2), að sögn Berglindar Guðmundsdóttur, landslagsarkitekts og umhverfisfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Fuglalífið á svæðinu tók mikinn kipp um leið og vatn tók að safnast í mýrina.

Bærinn fékk styrk til verksins, eina milljón króna, úr landbótasjóði Landgræðslunnar. Með endurheimt votlendisins dregur úr losun gróðurhúsalofts úr mýrinni. Verkefnið er í samræmi við sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Sótt var um leyfi fyrir framkvæmdunum til Umhverfisstofnunar vegna þess að Bleiksmýri er innan Reykjanesfólkvangs.

Berglind sagði að landið hefði verið dæmigert framræst votlendi. Verkið var unnið nú í septembermánuði og er lokafrágangur við stíflur eftir, að sögn Berglindar. Mokað var ofan í framræsluskurði, sem eru samtals 2,5 km langir, á nokkrum stöðum til að stífla þá. Efnið lá í haugum við skurðbakkana frá því að skurðirnir voru grafnir. Einnig voru gerðar sjö jarðvegsstíflur úr efni á staðnum til að hækka grunnvatnsstöðuna. Torf var rist ofan af jarðveginum og það síðan sett yfir stíflurnar. Sárið þar sem jarðvegurinn var tekinn var látið eiga sig og þar mun staðbundinn vatnagróður festa rætur. Sett voru yfirfallsrör í stíflurnar til að forða því að þær skolist í burtu í leysingum. Yfirfallsvatninu er beint í gamla, uppþornaða farvegi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert