Viðreisn hafnar dilkadrætti

Stofnfundur Viðreisnar nú fyrr í haust. Flokkurinn hafnar dilkadrætti og …
Stofnfundur Viðreisnar nú fyrr í haust. Flokkurinn hafnar dilkadrætti og kveðst reiðubúinn að vinna með öllum flokkum. mbl.is/Árni Sæberg

Viðreisn hafnar dilkadrætti og vill að kjósendur eigi kost á frjálslyndri stjórn sem geti dregið fram það besta á andstæðum vængjum stjórnmálanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Viðreisn sendi frá sér í dag, en flokkurinn boðar til blaðamannafundar í kosningamiðstöð sinni við Höfðatorg á morgun.

Í tilkynningunni segir að vangaveltur um mögulegt stjórnarmynstur hafi verið fyrirferðarmiklar á síðustu dögum og að útgangspunkturinn hafi gjarnan verið sá að stilla flokkum upp í andstæðar fylkingar.

„Viðreisn hefur ekki viljað taka þátt í slíkum gamaldags dilkadrætti, en leggur áherslu á að ná samstöðu um málefni til þess að endurbyggja traust almennings á stjórnmálum. Í því ljósi er rétt að árétta að Viðreisn er tilbúin að vinna með öllum flokkum, allt frá Sjálfstæðisflokki til Vinstri grænna og þeim flokkum þar á milli sem vilja vinna að frjálslyndri stefnu og pólitísku jafnvægi,“ segir í tilkynningunni

Íslenskt samfélag þarfnist stöðugleika á sviði stjórnmála, á vinnumarkaði og í efnahagsmálum. „Það tryggir þjóðin best með því að skipta ekki um póla á fjögurra ára fresti og kjósa öfganna milli.“

Ekki var greint frá því hvert efni blaðamannafundarins verði, en athygli vekur hins vegar að hann er haldinn á svipuðum tíma og fundur Pírata, Vinstri Grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert