Þingkona ósátt við loftslagshóp

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilgangur með loftslagsrýni hópsins París 1,5 á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum er að hampa einstökum flokkum en úthrópa aðra, að sögn Sigríðar Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hennar flokkur fær falleinkunn en vinstri flokkarnir góða þrátt fyrir það sem hún kallar „umhverfisslys“ þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk aðeins 0,7 í einkunn í svonefndri loftslagsrýni flokkanna sem París 1,5, áhugahópur um loftslagsmál, tók saman. Við matið á einkunn var byggt á nokkrum þáttum sem hópurinn taldi mikilvæga, eins og afstöðu til olíuvinnslu á Drekasvæðinu og markmiði um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Frétt Mbl.is: Telja þrjá flokka standast loftslagspróf

Hópurinn birti raunar uppfærða rýni í gær þar sem einkunn Sjálfstæðisflokksins var lækkuð í -0,1 og var vísað til stefnuleysis varðandi minnkandi losun og vilja til olíuvinnslu.

Við þetta er Sigríður ekki sátt, en hún segist í tilkynningu til fjölmiðla og í grein á vefsíðu sinni hafa sent hópnum athugasemdir sem ekki hafi verið tekið tillit til. Í athugasemdunum sem hún birtir gagnrýnir hún að ekki hafi verið tekið tillit til þess sem flokkarnir hafi gert „heldur aðeins fagurgala korteri í kosningar“.

Loftslagsrýni Parísar 1,5 á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum fyrir þingkosningarnar …
Loftslagsrýni Parísar 1,5 á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum fyrir þingkosningarnar 2016. graf/París 1,5

Skrifuðu undir Parísarsamkomulagið og fjallað um loftslag

Bendir hún á að flokkarnir sem hún kallar vinstriflokkana hafi sett milljarða af skattfé almennings í málmbræðslu á Bakka, beint fólki yfir í meira mengandi bíla með breytingum á sköttum á eldsneyti og staðið að því að veita olíuleyfi á Drekasvæðinu. Þrátt fyrir það fái þeir hæstu einkunn hjá París 1,5. 

Stjórnarflokkarnir fái hins vegar falleinkunn þó að þeir hafi undirritað Parísarsamkomulagið og staðið vörð um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sem hafi skilað 38% samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi.

Sigríður segist jafnframt sjálf hafa fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi í ræðu og riti og hún hafi meðal annars staðið fyrir opnum fundi um endurheimt votlendis og loftslagsmál.

„Það eru því gróf ósannindi að þessum málum hafi ekki verið sinnt af stjórnarflokkunum og frambjóðendur þeirra hafi ekki tekið málið upp í aðdraganda kosninga. Ég hygg að það séu oft á tíðum óvönduð vinnubrögð af þessu tagi sem gera fólk afhuga umhverfismálum á borð við loftslagsmálin. Fólk fær á tilfinninguna að málin hafi verið hertekin af óbilgjörnum hópum sem nota þau til að ná fram ýmsum öðrum pólitískum markmiðum sínum,“ skrifar Sigríður á vefsíðu sína.

Hefur talað gegn grænum sköttum 

Sigríður hefur fjallað töluvert um losun á gróðurhúsalofttegundum frá framræstu landi í kjölfar þess að umhverfisráðuneytið svaraði fyrirspurn hennar um áætlaða losun síðasta haust. Hefur hún meðal annars haldið því fram að aðgerðir til að draga úr losun frá bílum hafi lítið að segja til að draga úr heildarlosun því hún sé aðeins hlutfallslega lítil í samanburði við framræsta landið.

Frétt Mbl.is: Batnar ekki með öðru verra

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í fyrra lagði hún meðal annars til að grænir skattar á bíla og eldsneyti sem fyrri ríkisstjórn lagði á yrðu afnumdir. Í tilefni þeirrar greinar sagði Hlynur Óskarsson, sérfræðingur hjá Landbúnaðarháskólanum, að sjálfsagt væri að vinna að endurheimt votlendis til að draga úr losun en varaði við því að gera það að eina framlagi Íslands.

Undir það tók Árni Finnsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarsamtaka Íslands. Ísland yrði eins og önnur lönd að leita allra leiða til að draga úr losun frá samgöngum.

Athugasemdir Sigríðar Andersen við loftslagsrýni Parísar 1,5

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert