Hálka og éljagangur

Búast má við éljum, einkum inn til landsins og til fjalla í dag, en hitinn er nálægt frostmarki víða. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Hálkublettir eru víða á fjallvegum um allt land, einnig í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir og éljagangur er á Þröskuldum en snjóþekja á Hálfdáni, Kleifarheiði og Bröttubrekku. 

„Búast má við umhleypingum næstu daga. Ákveðin vestan og suðvestan átt á landinu í dag með skúrum eða éljum í flestum landshlutum, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt fyrir austan. Einkum má búast við éljaveðri inn til landsins, en skúraveðri við sjávarsíðuna. Hiti yfirleitt 0 til 6 stig. Svipað veður verður upp á teningnum í fyrramálið, en annað kvöld lægir og styttir upp að mestu. Kólnar í kjölfarið og frystir víða um land. Á laugardag hlýnar síðan aftur með suðaustan og austan hvassviðri með snjókomu og slyddu og síðar rigningu, fyrst sunnantil á landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veður á mbl.is

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan og vestan 8-15 m/s, hvassast við suðurströndina. Skúrir eða él, en skýjað með köflum og þurrt að mestu austantil á landinu. Hiti 0 til 6 stig. Lægir annað kvöld, styttir að mestu upp og kólnar.

Á föstudag:
Suðvestan 8-15 m/s og dálítil él, en léttskýjað A-lands. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig, en um frostmark til landsins. Lægir og léttir til með kvöldinu og frystir víða.

Á laugardag:
Gengur í austan og suðaustan hvassviðri með slyddu og síðar rigningu sunnantil á landinu, en slyddu eða snjókomu fyrir norðan. Hlýnandi veður, rigning um allt land um kvöldið og fer að draga úr vindi.

Á sunnudag:
Snýst í allhvassa eða hvassa suðvestanátt með skúrum, en léttir til fyrir austan. Hiti 3 til 9 stig.

Á mánudag:
Snýst í norðvestanátt með éljum, kólnar í veðri. Dregur úr vindi og léttir til sunnan- og vestantil þegar líður á daginn.

Á þriðjudag:
Minnkandi norðvestanátt austantil og stöku él, en hæglætisveður vestantil. Hiti um frostmark. Vaxandi suðaustanátt vestantil á landinu síðdegis með slyddu eða rigningu og hlýnar heldur.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með vætu og heldur hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert