Menning bætir samfélagið

Maríanna Másdóttir og Gísli Stefánsson eru meðal þeirra listamanna sem …
Maríanna Másdóttir og Gísli Stefánsson eru meðal þeirra listamanna sem fram hafa komið á Hátíð í bæ. Ljósmynd/Gunnar Gränz

„Allt hefur sinn tíma og nú er rétt að fela öðrum tónleikahaldið. Í mínum huga stendur upp úr að nú er orðin föst hefð í menningarlífinu hér á Suðurlandi frábær skemmtun sem fólk vill ekki vera án,“ segir Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi.

Næstkomandi miðvikudag, 7. desember, verða á Selfossi haldnir jólatónleikarnir Hátíð í bæ sem Kjartan stendur fyrir í 10. sinn. Þar koma fram um 160 listamenn, það er hljóðfæraleikarar, söngvarar og svo fólk í kórum og lúðrasveitum í héraðinu.

Einvala lið úr heimabyggð

„Þetta er sunnlensk hátíð sem ég er ákaflega stoltur af,“ segir Kjartan Björnsson. „Mér fannst á sínum tíma að við yrðum að standa höfuðborgarsvæðinu jafnfætis í tónleikahaldi og því hratt ég þessu af stað. Viðtökurnar voru strax góðar og það hefur alltaf verið fullt hús. Fólk hefur komið víða að af Suðurlandi. Svo ég nefni dæmi þá hafa kvenfélagskonur tekið sig saman vítt og breitt af Suðurlandi og komið. Þá taka félagahópar sig stundum saman og jafnvel heilu fjölskyldurnar. Margt eldra fólk hefur boðið fjölskyldu sinni á tónleikana og hefur það sem jólagjöf. Mörg fleiri svona dæmi gæti ég nefnt.“

Margir góðir tónlistarmenn koma fram á tónleikunum næstkomandi miðvikudag. Þar má nefna Selfyssinginn Magnús Kjartan Eyjólfsson, Barnakór Hvolsskóla, Karlakór Selfoss, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Jógvan Hansen, Lúðrasveit Þorlákshafnar, Daníel Hauk Arnarson söngvara úr Þorlákshöfn. Einnig Viktor Kára Garðarsson, ungan söngvara frá Selfossi sem sló rækilega í gegn á tónleikunum í fyrra og kemur aftur fram nú. Tónlistarflutningnum stýrir svo Vignir Þór Stefánsson ásamt einvala liði góðra tónlistarmanna úr heimabyggð.

Ungt fólk fær tækifæri

„Flest árin hefur Diddú komið fram á tónleikunum og svo verður einnig nú. Hún hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér enda góð söngkona og einstök manneskja,“ segir Kjartan. Hann getur þess ennfremur að á tónleikum þessum hafi Þorlákshafnarbúar alltaf verið áberandi. Músíklíf í útgerðarbænum sé mjög öflugt, þar sé starfandi lúðrasveit, kórar og fjöldi krakka sé í tónlistarnámi. Sama sé upp á teningnum víða annars staðar á Suðurlandi.

„Það er mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að koma fram opinberlega og jólatónleikarnir hafa verið vettvangur fyrir slíkt. Þar get ég nefnt Viktor Kára, Daníel Hauk og Karítas Hörpu sem er að slá í gegn í Voice-þáttunum núna,“ segir Kjartan sem er bæjarfulltrúi í Árborg og forseti bæjarstjórnar. Sem slíkur hefur hann verið formaður íþrótta- og menningarnefndar sveitarfélagsins, en á þess vegum eru haldnar skemmtanir og hátíðir sem hafa mælst vel fyrir. Má þar nefna Vor í Árborg og veglega dagskrá í október ár hvert.

Margir hafa lagt lið

„Fjölskyldan mín og vinir hafa hjálpað mér við þetta bras mitt í gegnum árin og fyrirtæki með starfsemi á svæðinu hafa stutt við þennan menningarviðburð. Það er líka ánægjulegt að við höfum með þessari samkomu alltaf getað lagt lið því fólki sem minna má sín. Hér á Suðurlandi er starfandi Sjóðurinn góði, samstarfsverkefni kirkjunnar, Rauða krossins, kvenfélaganna og fleira, og skjólstæðingar hans fá miða –fólk sem annars hefði ekki haft tækifæri til að mæta.“

Sem fyrr segir eru þetta 10. og síðustu jólatónleikarnir sem Kjartan stendur fyrir – aukinheldur sem hann stóð fyrir þorrablóti Selfossbúa í alls 13 ár. „Að sinna svona verkefnum, jafnhliða öðru, í mörg ár er krefjandi og því ætla ég að eftirláta öðrum þetta. En ég kveð þau vissulega með söknuði. Samfélagið verður einfaldlega betra með svona menningarviðburðum og að vinna að slíku er hugsjón mín,“ segir rakarinn á Selfossi að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert