Andlát: Loftur Guttormsson

Loftur Guttormsson.
Loftur Guttormsson.

Loftur Guttormsson, prófessor emeritus, lést sunnudaginn 4. desember á líknardeild Landspítalans eftir að hafa greinst með krabbamein á liðnu sumri.

Hann var á 79. aldursári, fæddur 5. apríl 1938 á Hallormsstað í Skógum, sonur Guttorms Pálssonar skógarvarðar þar og síðari konu hans, Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur frá Þykkvabæ í Landbroti.

Loftur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1957, stundaði síðan nám í sagnfræði og félagsfræði í Frakklandi og útskrifaðist frá Sorbonne-háskóla í París 1964. Hann tók doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1990. Loftur hóf störf við Kennaraskólann 1967 og kenndi við Kennaraháskóla Íslands frá stofnun hans, sem prófessor frá 1991, en lét af föstu starfi 2008. Um fimm ára skeið var hann prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Loftur tók mikinn þátt í félagsstörfum, var m.a. í starfshópi menntamálaráðuneytisins um samfélagsfræði 1972–1984, formaður stjórnar Sagnfræðingafélagsins um skeið og forseti Sögufélagsins 2001–2005. Hann stundaði víðtækar rannsóknir í félags- og samfélagsfræði og eftir hann liggur fjöldi ritgerða um þau efni. Loftur er jafnframt höfundur margra bóka, m.a. Frá siðaskiptum til upplýsingar, í ritröð Alþingis um kristni á Íslandi. Rit hans, Bernska, ungdómur og uppeldi á einveldisöld, sem út kom 1983, þykir klassískt verk og er væntanlegt í enskri þýðingu innan skamms.

Eftirlifandi eiginkona Lofts er Hanna Kristín Stefánsdóttir, fv. deildarstjóri. Eignuðust þau þrjú börn, Hrafn, Arnald og Hönnu, sem öll eru á lífi.

Útför Lofts verður frá Hallgrímskirkju fimmtudaginn 15. desember næstkomandi kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert