Árangurinn kemur ekki á óvart

Golffjölskyldan á góðri jólastundu. Frá vinstri: Alfreð, Kristján Leó, Hanna, …
Golffjölskyldan á góðri jólastundu. Frá vinstri: Alfreð, Kristján Leó, Hanna, Birta Líf, Ólafía Þórunn, Kristinn Jósep Gíslason, Viktoría Katrín, Elísabet María Erlendsdóttir, Silvía, Tómas Karl og Kristinn Jósep.

„Ég er ofboðslega stoltur af henni og vildi að ég gæti verið með henni og móður hennar úti að fagna þessum áfanga,“ segir Kristinn Jósep Gíslason, faðir Ólafíu Þórunnar, en Ólafía varð um helgina fyrst íslenskra atvinnukylfinga til að tryggja sér þátttökurétt á sterkustu golfmótaröðinni í Bandaríkjunum, LPGA-mótaröðinni.

„Þetta kemur mér ekki á óvart, hún hefur alltaf skarað fram úr í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Það skiptir engu máli hvort það er í námi eða íþróttum. Hún er fljót að læra og það tók mig til dæmis ekki nema örfáa daga að kenna henni að spila á gítar.“ Ekki fer milli mála að Kristinn er afar stoltur faðir, en á sama tíma og hann telur upp ótal afrek dóttur sinnar missir hann út úr sér að sjálf sé hún einstaklega hógvær og kunni því illa að slá um sig með afrekum sínum.

„Ég er afskaplega montinn af henni enda er hún líka svo góður einstaklingur. Hún talar aldrei illa um fólk og finnur alltaf það besta í öllum.“

Golf er fjölskyldusport

Kristinn er sjálfur mikill golfáhugamaður og segist hafa heillast af íþróttinni sem ungur maður.

„Ég byrjaði að spila golf þegar ég var 34 ára og við erum í þessu flest í fjölskyldunni í dag. Alfreð Brynjar, yngri sonur minn, sem spilaði með landsliðinu lengi, var kylfusveinn fyrir systur sína núna úti á öðru stiginu en hún var með atvinnukylfusvein á því fyrsta.“

Áhugi Ólafíu á golfinu vaknaði í kringum golfferðir bræðra hennar, en aðeins níu ára fannst henni sérkennilegt að vera send í pössun þegar aðrir fóru út á golfvöll.

„Þetta byrjaði hjá henni þegar við fórum með strákana okkar til Spánar að spila golf. Hún var í pössun á meðan við vorum í golfi en spurði mig þegar heim var komið af hverju hún fengi ekki að koma með. Ég sagði henni að hún fengi að koma með ef hún kynni að spila golf og stuttu síðar var hún komin á sitt fyrsta golfnámskeið,“ segir Kristinn og bætir því við að það hafi ekki tekið Ólafíu langan tíma að læra réttu handtökin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert