Ég mála af því að ég get það

Kristín Þorkelsdóttir hefur tekist á við margt í lífinu en …
Kristín Þorkelsdóttir hefur tekist á við margt í lífinu en blóðtappinn fékk hana til að sjá lífið í nýju ljósi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eftir erfið veikindi ákvað myndlistarkonan Kristín Þorkelsdóttir að nota listina til að leiða sig í gegnum fimm ára bataferli.

Með fangið fullt af verkefnum tók lífið óvæntan snúning á Kristínu Þorkelsdóttur myndlistarkonu. Um mitt ár 2012 lamaðist Kristín í vinstri útlimum í kjölfar blóðtappa. Kristín var vön að ferðast um Ísland og mála en á svipstundu var hún orðin nærri því ósjálfbjarga. Óvissa um framtíðina, óvissa um getu sína að sinna listinni og allt sem fylgir erfiðum veikindum bugaði hins vegar Kristínu ekki. „Þú lætur ekki deigan síga,“ segir hún „Ég slapp við lömun á hægri hendi, eins og mér væri ætlað að halda áfram að mála og ég ætlaði að halda áfram að mála.“

Lömunin hafði ekki bara áhrif á hreyfigetu Kristínar því hún segir sjónsvið sitt til vinstri hliðar hafa skerst um 50% á báðum augum en það hefur þó skilað sér til baka að mestu.

„Þó vinstri handleggur hafi verið eins og tilfinningalaus brauðhleifur í fyrstu verð ég að vera alveg heiðarleg og segja að ég hafði áhyggjur af sjóninni. Áhyggjur af því hvort hún myndi hamla mér í listinni en það gerði hún ekki. Í það minnsta ekki þannig að ég þurfti alveg frá að hverfa.“

Hver dagur er dýrmætur

Hún var alltaf á fullu og með alls konar framtíðarplön en veikindin kenndu Kristínu að njóta augnabliksins og ætla sér af. Hún var staðráðin í að gefast ekki upp.

„Eftir áfallið breyttist sýn mín á tilveruna. Hver dagur verður svo dýrmætur og það skiptir svo miklu hvernig ég nota hann: ég mála af því ég get það og ég tjái mig af sömu ástæðu. Ég hef í raun fengið aðvörun um að ég get hrokkið upp af hvenær sem er og hef ekki ótakmarkaðan tíma framundan. Það er mikil vinna að endurhæfast og mikla hjálp að fá til þess frá sínum nánustu og samfélaginu. Okkur eru öllum gefnir hæfileikar og að átta sig á að maður hefur ennþá tíma til að njóta þeirra og gefa af sér skiptir hverja manneskju miklu máli. Maður er lifandi! Hver dagur, hver mynd er hylling til lífsins, þannig þakka ég fyrir mínar gjafir og dvel við það sem gerir mig hamingjusama.“

Málar blómin í garðinum

Í meira en 30 ár ferðaðist Kristín um landið ásamt eiginmanni sínum, Herði Daníelssyni ljósmyndara. Hann með breiðmyndavél og filmur; hún með pappír og vatnsliti. Þau fönguðu áhrif landsins hvort með sínum hætti, en nú hefur orðið breyting á. Kristín málar litina og fegurðina í garðinum heima en hún segir bónda sinn vera garðálf heimilisins sem gætir bæði garðs og eiginkonu.

„Í fimm sumur hef ég málað liti og form garðsins. Málað akvarellur í garðinum þegar veður leyfir,“ segir hún um leið og hún viðurkennir að vera ekki sjálf með græna fingur.

„Ég nýt þess að mála náttúruna í garðinum meðan bóndinn heldur honum við og fegrar.“

Hæfileikinn ekki horfinn

Hætt er við að veikindi sem leiða til lömunar, þó aðeins að hluta, bitni á áunnum hæfileikum. Hæfileikum sem í áratugi hafa verið í mótun og þróun.

„Ég óttaðist að geta ekki málað með sama hætti og áður. Var hrædd um að geta ekki sinnt því sem ég geri best. En um leið og ég tók mér pensil í hönd var eins og allt kæmi aftur. Hæfileikinn og reynslan voru ekki horfin. Hugurinn og þráin skiptu máli. Þetta var allt í höndunum á mér enn,“ segir Kristín en hún hefur málað fjölda mynda í bataferli sínu, sem núna eru til sýnis í Hannesarholti.

Bataferlið hefur verið langt en árangursríkt að sögn Kristínar sem á að baki glæsilegan feril sem grafískur hönnuður og myndlistarmaður. Hún hefur rekið eigin auglýsingastofu og gallerí og segist hvergi vera hætt.

Verk eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem sýnd eru í Hannesarholti.
Verk eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem sýnd eru í Hannesarholti. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Verk eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem sýnd eru í Hannesarholti.
Verk eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem sýnd eru í Hannesarholti. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Verk eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem sýnd eru í Hannesarholti.
Verk eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem sýnd eru í Hannesarholti. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Hjónin Kristín og Hörður saman.
Hjónin Kristín og Hörður saman. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert