Breyttur stuðningur við sauðfjárrækt

Svæðisbundinn stuðningur við sauðfjárrækt hefur verið endurskilgreindur.
Svæðisbundinn stuðningur við sauðfjárrækt hefur verið endurskilgreindur. mbl.is/Sigurður Bogi

Í samræmi við ný búvörulög var Byggðastofnun falið síðastliðið vor að útfæra með einfaldari og skýrari hætti en áður svæðisbundinn stuðning fyrir sauðfjárbændur á þeim landsvæðum sem eru háðust sauðfjárrækt. Hingað til hefur verið miðað við mörk sveitarfélaga en eftir breytinguna verður miðað við fjarlægð frá næsta þéttbýlisstað. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

„Að mati Byggðastofnunar getur afmörkun við sveitarfélög valdið því að svæði sem nú njóta stuðnings falli út, t.d. vegna sameiningar sveitarfélaga. Til þess að komast hjá slíku var horft til þess að vera með almennar skilgreiningar sem byggjast á fjarlægð frá stærra þéttbýli. Byggir það á því að þeir sem búa í nágrenni þéttbýlis eiga möguleika á að sækja vinnu þangað umfram þá sem fjær búa,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að unnið hefur verið úr tillögum Byggðastofnunar og liggja þær núna fyrir. Núverandi stuðningur á býli er núna milli 173.553 krónum og 267.830 krónum á ári en verður á fyrsta ári samningsins milli 234.875 og 293.594 eftir breytinguna.

Framlög til svæðisbundins stuðnings hækka árið 2018 og verða greiðslur á býli milli 344.009 krónur og 430.012 krónur.

„Markmiðið með svæðisbundnum stuðningi er að veita stuðning til framleiðenda sem hafa takmarkaða möguleika á annarri tekjuöflun og eru á landsvæðum sem háðust eru sauðfjárrækt,“ segir í tilkynningunni.

Unnið hefur verið úr tillögum Byggðastofnunar.
Unnið hefur verið úr tillögum Byggðastofnunar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Áfram munu gilda sérstakar reglur um  framleiðendur í Árneshreppi. Þeir munu fá 25% álag á svæðisbundinn stuðning fyrir 100 ær eða fleiri samkvæmt forðagæsluskýrslu frá síðasta hausti.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að framleiðendur sem uppfylla öll neðangreind skilyrði eigi rétt á svæðisbundnum stuðningi:

1. Búi á lögbýli sem er í 40 km akstursfjarlægð eða lengra frá þéttbýlisstað sem er með yfir 1.000 íbúa.

2. Búi á lögbýli sem er í 75 km akstursfjarlægð eða lengra frá þéttbýlisstað sem er með yfir 10.000 íbúa.

3. Búi lögbýli sem er í 150 km akstursfjarlægð eða lengra frá Reykjavík.

Til að eiga rétt á svæðisbundnum stuðningi þurfa viðkomandi bændur að stunda sauðfjárrækt á lögbýli og hafa átt 250 ær eða fleiri samkvæmt forðagæsluskýrslu frá næstliðnu hausti.

Kort Byggðastofnunar yfir svæðin sem munu njóta stuðnings miðað við tillögurnar.

Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi 1. janúar 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert