Skýrsla tekin vegna Geirfinnsmálsins

Geirfinnur Einarsson.
Geirfinnur Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Búið er að taka skýrslu af manni sem um miðjan nóvember steig fram með ábendingu sem tengist hvarfi Geirfinns Einarssonar. Geirfinnur hvarf sporlaust að kvöldi 19. nóvember árið 1974. Ábending mannsins var þess eðlis að ástæða þótti til að taka hana alvarlega, skoða og fylgja mögulega eftir. Í samtali við mbl.is nýverið sagði formaður endurupptökunefndar að maðurinn væri „traustur aðili“. Í frétt RÚV um málið í dag segir að maðurinn sé ekki í hópi þeirra sem tóku þátt í rannsókn sakamálsins fyrir meira en fjörutíu árum.

Í kjölfar ábendingarinnar, sem barst settum ríkissaksóknara í endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna, var ákveðið að fresta birtingu ákvörðunar endurupptökunefndar sem hefur undanfarna mánuði lagt mat á hvort taka beri málin upp að nýju.

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í málinu, segir í samtali við mbl.is að ábending mannsins hafi verið þess eðlis að ástæða þótti til að taka af honum skýrslu og skoða málið frekar. Nú hefur skýrslan verið tekin af lögreglunni á Austurlandi. 

„Þetta er alla vega frásögn sem skiptir máli,“ segir Davíð Þór, spurður hvort ábending mannsins snúi beinlínis að því hvernig hvarf Geirfinns bar að. 

Davíð Þór hefur ekki enn séð skýrsluna. Hún er enn í vinnslu. Þegar hann hefur gert það mun hann koma henni áfram til endurupptökunefndar sem ákveður svo um framhaldið. Fyrr verði ekki ákveðið hvort frekari skýrslur verði teknar. Það sé endurupptökunefndar að ákveða það. „Við byrjum á því að vinna með þetta, sjá hvað þarna er og meta það svo hvort ástæða þyki til að gera eitthvað frekar,“ segir Davíð Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert