Venesúelamaður dýrkar íslenska tónlist

Venesúelsku læknahjónin, Germán Añez Gutiérrez og Alejandra Virgina Riera González, …
Venesúelsku læknahjónin, Germán Añez Gutiérrez og Alejandra Virgina Riera González, ferðuðust víða um Ísland í sinni fyrstu ferð hingað árið 2014.

Fyrir tveimur árum ferðaðist venesúelski læknirinn Germán Añez Gutiérrez til Íslands og kolféll fyrir íslensku tónlistarfólki og hæfileikum þess. Daglega leiðir hann hins vegar hóp vísindamanna í Pennsylvaníu sem þróa mótefni við zika-veirunni.

„Ég þekkti ekki mikið til íslenskrar tónlistar áður en ég fór til Íslands, þótt ég hafi auðvitað hlustað á Sigur Rós og þónokkuð á Björk. Þegar ég tók svo flugvél frá Washington DC til Íslands leitaði ég að íslensku tónlistinni sem var í boði og stakk heyrnartólunum í samband. Ég man alltaf að fyrsta lagið sem ég heyrði var „Dýrð í dauðaþögn“ með Ásgeiri Trausta,“ segir Germán frá. „Eitt lag tók við af öðru, án þess að ég vissi hverjir væru að spila og ég eyddi mestum hluta flugsins í að hlusta á þessa tónlist. Ég sneri mér að konunni minni og spurði: „Veistu hvað er skrítið? Ég er búinn að hlusta á íslenska tónlist í marga klukkutíma og hvert lagið er öðru betra. Hve miklir hæfileikar geta fyrirfundist á lítilli eyju?““

Germán spilaði á trompet í fjölda ára.
Germán spilaði á trompet í fjölda ára.

Umkringdur tónlist

„Ég er frá vesturhluta Venesúela, fæddur í borginni Maracaibo sem er næststærsta borgin á eftir höfuðborginni Caracas, en ólst upp í litlum bæ fyrir utan borgina sem heitir La Conception. Það var tónlist alls staðar í kringum mig, sem er bara hluti af menningunni. Fólk við Karíbahafið er mjög tónelskt og þótt það spili ekki allir á hljóðfæri þá dansa allir.“

Sjálfur lék Germán á nokkur hljóðfæri. Sem gutti kenndi hann sjálfum sér á hljómborð, en þegar hann byrjaði í hljómsveit tónlistarskólans í Maracaibo, lék hann á slagverk, síðan franskt horn og endaði á trompet.

„Við lékum skemmtilega blöndu af klassískri tónlist og svo salsa, merengue og öðrum suðrænum dönsum. Það má vel kenna okkur klassíkina en það er ekki hægt að taka úr okkur Karíbabúann,“ segir Germán og hlær. Á þessum tíma kynntist hann fólki sem reddaði honum tigritos eða spilagiggum sem þau kalla „litla tígra“. Eftir að hann byrjaði í læknanáminu hélt hann áfram að spila út um alla borg til að framfleyta sér.

„Þótt ég hafi ekki látið drauminn rætast um að verða atvinnutónlistarmaður, þá er ég glaður að hafa lært að þekkja og njóta tónlistar jafn vel og ég geri.“

Germán vinnur við að finna upp móteitur, m.a. gegn zika-veirunni.
Germán vinnur við að finna upp móteitur, m.a. gegn zika-veirunni.

Net íslenskra tónlistarmanna

Germán og kona hans, Alejandra Virgina Riera González, kynntust í læknanáminu og unnu eftir það saman í eitt ár á meðal indíána á miklu fátækrasvæði á landamærum Venesúela og Kólumbíu. Þau fluttu síðan til Washington DC, en þegar Alejandra fór í sérnám til New York og þau sáu fram á að þurfa að vera mikið aðskilin vildi Germán gera eitthvað eftirminnilegt.

„Það var þá sem við fórum til Íslands. Því miður komst ég ekki á tónleika í það skiptið, en á leiðinni heim bað ég íslenskan sætisfélaga minn um að skrifa niður nafnið á Ásgeiri á miða. Um leið og ég kom aftur til Washington leitaði ég að honum á netinu. Þar sá ég að Þorsteinn sem syngur og semur flest lögin fyrir hljómsveitina Hjálma er bróðir Ásgeirs! Guðmundur Kristinn Jónsson í Hljóðrita, sem er pródúsentinn þeirra beggja, er líka í Hjálmum sem ég fór að hlusta á. Það leiddi mig til Sigurðar Guðmundssonar og tónlistarinnar sem hann hefur gert með Sigríði Thorlacius og þannig koll af kolli þar til ég var farinn að þekkja þetta þétta net íslenskra tónlistarmanna,“ útskýrir Germán sem í dag á um 60-70 íslenska geisladiska sem hann hefur hlustað á fram og tilbaka.

„Ef þú réttir mér hljómborð, þá gæti ég áreiðanlega spilað flest lögin af þessum diskum fyrir þig,“ segir hann eins og ekkert sé.

Sigurður Guðmundsson spjallaði við litla frænku Germáns í síma.
Sigurður Guðmundsson spjallaði við litla frænku Germáns í síma.

Eignaðist íslenska vini

„Þegar Ásgeir Trausti túraði um Bandaríkin fórum við Alejandra á tónleikana í New York. Við fórum fyrst út að borða og þar sá ég menn sem litu út eins og víkingar og hlutu að vera með Ásgeiri. Ég fór og spjallaði við þá og sagði þeim frá aðdáun minni á íslenskri tónlist, sem endaði á því að ég söng fyrir þá lagið „Manstu“ með Hjálmum, þótt ég skildi ekkert hvað ég væri að segja. Þeir litu furðulostnir hver á annan og fannst þetta mjög fyndið. Þannig kynntist ég mínum fyrstu íslensku vinum.

Ég fór líka á tónleikana í Washington og eftir þá fór ég með þeim í hljómsveitarrútuna. Þegar við Júlíus, gítarleikari Ásgeirs, vorum að spila og syngja kom fólkið frá íslenska sendiráðinu að heilsa upp á hljómsveitina. Þau spyrja hver væri eiginlega að syngja, og strákarnir sögðu að þetta væri klikkaður Venesúelamaður sem væri að læra að syngja á íslensku án þess að hafa nokkra góða ástæðu til. Þar með kynntst ég fólkinu í sendiráðinu og ég skráði mig síðar í Íslendingafélagið í Washington og hef farið á uppákomur hjá því.“

Kiddi í Hljóðrita bauð hæstánægðum Germán í stúdíóið í Hafnarfirði.
Kiddi í Hljóðrita bauð hæstánægðum Germán í stúdíóið í Hafnarfirði.

Kraftur íslensku tungunnar

Germán hefur síðan verið í sambandi við íslenska félaga sína, ekki síst Helga Svavar Helgason trommuleikara.

„Þegar ég fór síðast til Íslands í nóvember sl. kynnti tónlistarfólkið mig hvað fyrir öðru, þau þekkjast öll. Ég hitti Kidda upptökustjóra í Hljóðrita og fjölskyldu á kaffihúsi í Hafnarfirði og þau buðu Sigurði Guðmunds af því að þau vissu að ég væri aðdáandi hans. Sigurður hringdi í bróður sinn, sem reyndist vera Guðmundur Óskar, bassaleikari í Hjaltalín, og reddaði okkur miðum á tónleika með þeim um kvöldið. Þar hitti ég fullt af fólki, m.a. Siggu Toll söngkonu sem mér fannst frábært.“

Germán langar til að læra íslensku til að geta skilið það sem vinir hans syngja í lögunum sínum. „Þótt ég fíli líka þegar þau syngja á ensku, þá er einhver kraftur í íslensku tungunni sem næst ekki í gegn í ensku þýðingunni,“ segir hann.

Germán var alsæll með að hitta Sigríði Thorlacius söngkonu eftir …
Germán var alsæll með að hitta Sigríði Thorlacius söngkonu eftir tónleika Hjaltalín.

Tónlistarfólk veitir gleði

Seinustu tónleikar sem Germán fór á með íslenskum tónlistarmanni voru með Ólöfu Arnalds í byrjun febrúar í New York.

„Ég hafði hlustað á tónlistina hennar áður, en þetta var í fyrsta skipti sem ég sá hana spila og það var mjög gaman. Það sem er sérstakast við hana er raddsviðið og liturinn á röddinni hennar sem er mjög fallegur. Mjög sérstök rödd, eins og Björk með sína einstöku rödd. Ég er einmitt að vonast til að komast á tónleika með Björk bráðlega í New York þar sem hún býr í borginni.“

Annars hlakkar Germán til þess að ferðast til Íslands næst og fara á sem flesta tónleika.

- Og þangað til heldur þú áfram að þróa mótefni?

„Já, það er góð tilfinning að geta gefið til samfélagsins á þennan hátt, ekki síst þegar lítil börn eru helstu fórnarlömbin eins og í tilfelli zika-veirunnar. En allir hafa sinn stað í samfélaginu og ekki síst tónlistarfólk sem veitir öðrum mikla gleði. Einn af grísku heimspekingunum sagði að tónlistin væri fyrir sálina það sem leikfimi er fyrir líkamann. Það er mikill sannleikur í því,“ segir Venesúelamaðurinn Germán Añez Gutiérrez sem lesendur eiga innan tíðar eftir að rekast á á næsta tónleikastað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert