Um 30 bíða eftir hjúkrunarrými í Árborg

Hjúkrunarheimilið Kumbaravogur
Hjúkrunarheimilið Kumbaravogur mbl.is/Sigurður Bogi

Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður færni- og heilsumatsnefndar Heilbrigðisumdæmis Suðurlands, segir að líklega verði hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi lokað fyrir lok þessa mánaðar, því vistmönnum hafi flestöllum verið fundinn nýr dvalarstaður, í samræmi við þeirra eigin óskir. Einhverjir þurfi þó að hefja biðvistun.

Unnur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að af 29 vistmönnum Kumbaravogs hefðu 6 óskað eftir að fara út fyrir svæðið, m.a. til Reykjavíkur, í Reykjanesbæ og á Höfn í Hornafirði.

„Það hefur gætt ákveðins misskilnings í sambandi við vistmennina á Kumbaravogi og að jafnvel stæði til að flytja þá hreppaflutningum, sem hefur vitanlega aldrei staðið til. Mér finnst slík umræða heldur leiðinleg, því það hefur aldrei staðið til að senda einn einasta vistmann eitthvað sem hann ekki vildi. Fólkið ákvað sjálft hvert það vildi fara,“ sagði Unnur.

Skorað á heilbrigðisráðherra

Kvenfélag Selfoss samþykkti nýverið áskorun á heilbrigðisráðherra um að hann beiti sér fyrir verulegri fjölgun hjúkrunarrýma í Árborg. Orðrétt segir m.a. í áskoruninni: „Það skýtur skökku við í nútímasamfélagi að aldraðir íbúar Árborgar séu neyddir til búferlaflutninga úr sveitarfélaginu.“

Unnur segir að vissulega hafi skapast erfitt ástand, hvað varðar hjúkrunarrými, eftir að Kumbaravogi verður lokað. „Á meðan verið er að koma vistfólkinu af Kumbaravogi inn í hjúkrunarrými hér í sveitarfélaginu, þá er ekki tekið inn fólk sem er á biðlistum. Hjá okkur eru nú um 25 á biðlista eftir hjúkrunarrými í Árnessýslu og annar eins fjöldi bíður eftir hvíldarinnlögn,“ sagði Unnur.

Unnur sagði ennfremur að ef ekki væri hægt að koma vistmanni fyrir þar sem hann óskaði, þá ætti hann þess kost að fara tímabundið í biðpláss, þar til pláss á óskastaðnum losnaði og við slíka skammtímaráðstöfun, héldi vistmaðurinn sínum stað á biðlistanum.

Unnur sagði að stefnt væri að því að nýtt hjúkrunarheimili risi í Árborg á næstunni og að það yrði tekið í notkun vorið 2019. „Við erum að berjast fyrir því að rýmin þar verði 60 en ekki 50, og ekki veitir af eftir að Kumbaravogi verður lokað,“ sagði Unnur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert