Vegurinn á Kjalarnesi opnaður

Búið er að opna veginn á Kjalarnesi.
Búið er að opna veginn á Kjalarnesi. mbl.is/Árni Sæberg

Búið er að opna veginn á Kjalarnesi en enn er lokað austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. Mosfellsheiði er sömuleiðis ófær. Eins er ófært um Krýsuvíkurveg og Suðurstrandarveg. Snjóþekja er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Ekki eru allar stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu fólksbílafærar. 

Á Suðurlandi er ýmist þæfingsfærð, þungfært eða jafnvel ófært.  Óljóst er hve langan tíma mokstur og hreinsun kann að taka.

Vegurinn fyrir Hafnarfjall er lokaður og ófært er á Mýrunum en vegir eru þokkalega færir á Snæfellsnesi og í Dölum. Fært er frá Borgarnesi upp Norðurárdal og yfir Holtavörðuheiði. Eins er Borgarfjarðarbrautin fær.

Snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum og verið að hreinsa vegi. Enn er þó ófært á Klettshálsi og Kleifaheiði.

Þokkaleg færð er á Norðurlandi enn þá en víða er þó orðið hvasst og kominn skafrenningur.

Aðalleiðir á Austurlandi eru einnig vel færar þótt víða sé hálka á fjallvegum og til landsins. Greiðfært er niðri á Fjörðum og vestur í Öræfi en þaðan er ýmist snjóþekja eða nokkur hálka vestur að Hvolsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert