Sigurður Helgi formaður LUF

Ný stjórn félagsins.
Ný stjórn félagsins.

Síðastliðinn laugardag, 25. febrúar, fór fram sambandsþing Landssambands æskulýðsfélaga (LÆF) þar sem fulltrúar þingsins samþykktu breytingu á nafni félagsins í Landssamband ungmennafélaga (LUF).

Sigurður Helgi Birgisson, fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands og fráfarandi alþjóðafulltrúi var kjörinn formaður félagsins. Tók hann við af Sigurði Sigurðssyni, fulltrúa JCI. Í tilkynningu frá félaginu segir að Sigurður hafi í ræðu sinni lagt áherslu á aukið samstarf ungmennafélaga á Íslandi og styrkingu innra starfs sambandsins. Þá benti hann enn fremur á þau tækifæri til breytinga sem felast í þverpólitískri samstöðu ungmennafélaga og samstarfi þeirra.

Sigurður Helgi Birgisson, formaður Landssambands ungmennafélaga (LUF).
Sigurður Helgi Birgisson, formaður Landssambands ungmennafélaga (LUF).

Þá var Sara Sigurðardóttir, fulltrúi Sambands íslenskra námsmanna erlendis, kjörin varaformaður LUF, Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi Ungra jafnaðarmanna gjaldkeri, Una Hildardóttir fulltrúi ungmennadeildar Norræna félagsins ritari og Laufey María Jóhannsdóttir, fulltrúi Ungra athafnakvenna, alþjóðafulltrúi. Kosnir voru tveir meðstjórnendur, þau Guðbjört Angela Mánadóttir, fulltrúi Sambands íslenskra framhaldsskólanema, og Ólafur Hrafn Halldórsson, fulltrúi Ungra pírata.

Tvö félög sóttu um fulla aðild að sambandinu í ár; Samfés og Ungliðahreyfing Viðreisnar. Hlutu þau fulla aðild með einróma lófataki allra þingfulltrúa. Eiga nú samtals 32 félög aðild að LUF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert