Þátttakan öllum mikið gleðiefni

Special Olympics 2017. Íslenski hópurinn fyrir brottför. Frá vinstri: Helga …
Special Olympics 2017. Íslenski hópurinn fyrir brottför. Frá vinstri: Helga Olsen þjálfari og fararstjóri, Daði Þorkelsson, Nína Margrét Ingimarsdóttir, Júlíus Pálsson, Stefán Páll Skarphéðinsson, Ásdís Ásgeirsdóttir, Ragna Gunnarsdóttir, þjálfari og fararstjóri, og Guðmundur Sigurðsson.

Daði Þorkelsson rannsóknarlögreglumaður var í alþjóðlegu liði lögreglumanna í kyndilhlaupi á milli bæja í Austurríki vegna alþjóðavetrarleika Special Olympics, sem nú standa yfir í Graz og Schladming og lýkur á laugardag.

Guðmundur Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, sem tók þátt í hlaupinu fyrir sumarleikana 2015, var nú í skipulagshópnum vegna hlaupsins og hljóp með að hluta.

Guðmundur stóð fyrir fyrsta kyndilhlaupi íslenskra lögreglumanna í tengslum við Íslandsleika Special Olympics í Reykjanesbæ 2013. Þá fékk hann Daða til þess að hlaupa og aftur núna. Daði segir að það hafi verið sérstök upplifun að kynnast þessu einstaka íþróttafólki. „Keppendurnir eru svo ánægðir og þeir gefa lögreglumönnunum mikið, rétt eins og lögreglumennirnir gefa af sér á móti. Virðingin er gagnkvæm og þátttakan er öllum mikið gleðiefni.“

Kyndilhlaupið. Austurrískur keppandi á milli Daða og Guðmundar í Vín …
Kyndilhlaupið. Austurrískur keppandi á milli Daða og Guðmundar í Vín á leiðinni til Graz.


Hlaupið hófst 9. mars og leikarnir voru settir 18. mars. Keppendur eru með þroskahömlun og/eða aðrar sérþarfir, en leikarnir eru fyrir alla í hópnum, burtséð frá reynslu og getu. Íþróttasamband fatlaðra heldur utan um þátttöku Íslands, sem á fjóra keppendur í listhlaupi á skautum, en alls eru um 2.700 keppendur í níu greinum. Íslensku þátttakendurnir eru Ásdís Ásgeirsdóttir, Stefán Páll Skarphéðinsson, Nína Margrét Ingimarsdóttir og Júlíus Pálsson.

Allir ganga í takt

„Gleðin er allsráðandi á þessum leikum og allir ganga í sama takt, jafnt keppendur sem aðrir sem hlut eiga að máli,“ segir Daði. „Margir keppendurnir hafa gengið í gegnum ótrúlega erfiðleika, jafnvel verið við dauðans dyr eða verið sagt að þeir ættu hvergi heima nema á stofnun, en þeir hafa brotið sig út úr mótlætinu og hafa verið færir um að gera ótrúlegustu hluti. Það er erfitt að halda aftur af tárunum þegar maður heyrir reynslusögurnar og kynnist baráttu þessara kátu íþróttamanna.“

Þátttakan skilur mikið eftir, að sögn Daða. Hann leggur áherslu á að hann sem slíkur skipti ekki máli í þessu sambandi heldur velferð íþróttafólksins. „Aðalatriðið er að vekja athygli á leikunum og fyrir hvað þeir standa,“ segir Daði. „132 lögreglumenn og keppendur tóku þátt í hlaupinu og nú hef ég eignast 131 nýjan vin. Samhugurinn er sem rauður þráður í gegnum leikana og hann er mikils virði, á eftir að fylgja mér um ókomin ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert