„Það ríkti mikil örvænting“

Skjáskot/YouTube

„Það ríkti mikil örvænting þarna og það var svona „panic-ástand“ eins og skapast í svona,“ segir Björn Ó. Einarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði, í samtali við mbl.is. Snjóflóð féll af þaki Fjarðabyggðarhallarinnar á Reyðarfirði um síðustu helgi og um stund var óttast að börn hefðu orðið undir flóðinu. Austurfrétt sagði frá málinu fyrr í vikunni.

Björgunarsveitin var stödd á æfingu með snjóflóðahundi sveitarinnar í Oddsskarði þegar kallið kom og tók það sveitina dálítinn tíma að komast inn á Reyðarfjörð. Almenningur hófst þó þegar í stað handa við að leita í flóðinu og lögðu allir hönd á plóg. „Þú veist ekki hvort það er barnið þitt,“ segir Björn. Meðal þeirra sem tóku þátt í leitinni voru liðsmenn Leiknis og Fram í knattspyrnu en leikur liðanna stóð yfir í höllinni þegar flóðið féll og var hlé gert á leiknum um stund.

Um 45 mínútum eftir að björgunarsveitin var komin á vettvang tókst að ganga úr skugga um að enginn hefði orðið undir flóðinu svo fólk gat andað léttar. Betur fór en á horfðist en í meðfylgjandi myndskeiði, sem Gunnar Gunnarsson birtir á YouTube, má sjá hvernig fjöldi fólks kepptist við að leita í snjónum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert