Flugstöðin rýmd af öryggisástæðum

mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Flugstöð Leifs Eiríkssonar var rýmd í dag af öryggisástæðum en engin hætta er þó talin á ferðum að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa ISAVIA.

Ástæðan er sú að farþegar í flugvél frá Grænlandi áttu að fara í gegnum öryggisleit við komuna til Íslands en fyrir mistök fyrirtækisins kom flugvélin að öðru hliði en til stóð þannig að farþegarnir fóru ekki í gegnum slíka leit.

Þess í stað blönduðust farþegarnir við aðra farþega í flugstöðinni og við þær aðstæður er það eina sem hægt er að gera samkvæmt verklagi í flugverndarreglum að sögn Guðna að rýma flugstöðina og allir farþegar fari í gegnum öryggisleit aftur.

Þetta mun þýða tafir á flugi segir hann en ekki liggur fyrir hversu miklar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert