Ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra sagði að það væri ástæða til að ljúka rannsókn á einkavæðingarferli bankanna. Þetta sagði hann í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag en Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, spurði hvort ekki væri ástæða til að fá allt fram um þessi mál.

Katrín sagði að eftirlitsstofnanir hefðu ekki kannað aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser við hlut ríkisins á sölu Búnaðarbankans fyrir 14 árum. S-hópurinn hafði lagt mikla áherslu á að fá erlent fjármagn til að gera tilboð sitt betra.

„Hvað annað gekk á á sama tíma? Sumir telja að það eigi ekki að fara í frekari rannsókn, vilja sitja og bíða eftir að eitthvað dúkki upp. Við sjáum í þessu máli að eftirlitsstofnanir fengu í hendur gögn en það var ekki ráðist í fullnægjandi rannsókn,“ sagði Katrín.

Hún sagði að eina leiðin til að eyða tortryggni gagnvart bönkunum væri að fara í ítarlega rannsókn á allri einkavæðingu bankanna árið 2003. „Eina leiðin til að eyða tortryggni er að fara í gagngera rannsókn og draga lærdóm af ferlinu áður en ráðist er í aðra einkavæðingu. Er ekki ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli þannig að við fáum allt fram um þetta mál?“ spurði Katrín.

Vill að allt sé gagnsætt

Það er ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli,“ sagði Benedikt í stuttri ræðu.

Katrín spurði ráðherra þá hvort hann teldi sömuleiðis ástæðu til að bíða með það að ráðast í frekari sölu á hlut ríkisins á bönkunum þar til slíkri rannsókn hefur verið verið lokið? 

Ég tel að það sé mikilvægt að hér sé gagnsætt ferli við sölu bankanna. Ferli sem þýðir að allir sitja við sama borð, sem leynir ekki hverjir eru raunverulegir kaupendur. Ég hef sent FME bréf og spurt hverjir eru bak við hlut Kaupþings í bönkunum,“ sagði Benedikt.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert