Fyrsta alþjóðlega salsadanshátíðin

Það verður dansað heilmikið salsa um helgina.
Það verður dansað heilmikið salsa um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðlega salsadanshátíðin Midnight Sun Salsa hefst í dag en þetta er í fyrsta skipti sem hátíðin er haldin hér á landi.

Danshátíðin stendur yfir í fjóra daga. Í boði verða kennslustundir í hinum ýmsu latin-dönsum með 7 erlendum gestakennurum. Auk þess verða haldin dansiböll þar sem erlendir skífuþeytarar leika fyrir dansi. Hátíðin nær hápunkti þegar Norðurlandamótið í salsa og bachata fer fram á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu á  laugardagskvöld, að því er segir í tilkynningu.

„Búast má við flugeldasýningu í dansi, en til keppni eru skráð 9 lið, 5 erlend og 4 innlend. Með fræknum sigri Salsa Iceland í Stargate-sýningarröðinni í Berlín síðastliðið ár var Ísland komið á salsa-kortið, og sköpuðust þannig forsendur fyrir Salsa Iceland að geta boðið sigurvegurum Norðurlandamótsins á Íslandi sýningarpláss á einum stærsta salsadansviðburði heims í Berlín. Það er því til mikils að vinna fyrir liðin og má búast við stórkostlegri sýningu sem á sér enga sína líka,“ segir Edda Blöndal salsakennari í tilkynningunni.

Salsa Iceland, salsadansskóli og félag áhugasamra um salsadans á Íslandi, stendur að hátíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert