Leigutekjur standa ekki undir rekstri

27 sveitarfélög glímdu við rekstrarvanda vegna leiguíbúða um síðustu áramót.
27 sveitarfélög glímdu við rekstrarvanda vegna leiguíbúða um síðustu áramót. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sveitarfélögin í landinu eiga samtals 5.089 íbúðir og hefur þeim fjölgað um 1,9% frá árinu 2015. Alls glímdu 27 sveitarfélög við rekstrarvanda vegna leiguíbúða um síðustu áramót og hefur fækkað um fimm frá fyrra ári. Er rekstrarvandinn rakinn til þess að leigutekjur standa ekki undir rekstri.

Er þetta meðal þess sem kemur fram í árlegri könnun varasjóðs húsnæðismála á leiguíbúðum sveitarfélaganna. Starfar sjóðurinn á vegum velferðarráðuneytisins samkvæmt lögum um húsnæðismál. Er hlutverk hans m.a. að veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Auk þess er hlutverk sjóðsins að veita ráðgjöf og leiðbeiningar þeim sveitarfélögum sem vilja breyta um rekstrarform félagslegra leiguíbúða eða hagræða í rekstri þeirra.

Vandkvæði vegna auðra íbúða að mestu úr sögunni

Aðrar niðurstöður könnunarinnar eru meðal annars þær að vandkvæði vegna auðra íbúða innan leiguíbúðakerfisins eru að mestu úr sögunni; fyrir 10 árum höfðu um 150 íbúðir verið auðar lengur en sex mánuði en nú ná þær ekki að fylla einn tug.

30 sveitarfélög töldu sig búa við skort eða nokkurn skort á leiguíbúðum árið 2016, 13 sveitarfélög töldu leigumarkaðinn vera í jafnvægi, þrjú nefndu nokkurt offramboð og eitt nefndi offramboð. Sveitarfélögum sem nefna skort á félagslegu húsnæði hefur fjölgað úr sex í ellefu en þeim sem telja sig búa við jafnvægi á markaði hefur fækkað úr 23 í 13.

Umsækjendur á biðlistum sveitarfélaga eftir félagslegu leiguhúsnæði voru 1.613 árið 2016 en þeir voru örlítið fleiri árið áður, eða 1.688. Flestir umsækjendanna eru einstaklingar eða einstæðir foreldrar. Biðtími eftir íbúð var lengstur 48 mánuðir hjá Hafnarfjarðarkaupstað, þá 36 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og Hveragerðisbæ og 30 mánuðir hjá Akureyrarkaupstað.

11 sveitarfélög hafa áform um að fjölga leiguíbúðum

Alls hafa 11 sveitarfélög áform um að fjölga leiguíbúðum sínum um samtals 85 íbúðir, ýmist með því að kaupa, byggja eða framleigja íbúðir. Mestu munar um 46 íbúðir sem Reykjavíkurborg hyggst kaupa. Alls hafa sex sveitarfélög í hyggju að taka í notkun 121 íbúð á árunum 2017 og 2018. Þarna vegur þyngst hlutur Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem reiknað er með að 28 íbúðir verði teknar í notkun árið 2017 og 45 íbúðir árið 2018, alls 73 íbúðir.

Meðalleigan var hæst á höfuðborgarsvæðinu og á því svæði var hún hæst í Garðabæ, Reykjavík og Seltjarnarneskaupstað. Meðalleiga á fermetra utan höfuðborgarsvæðisins er oftar en ekki um eða undir 1.000 kr. Sé litið til einstakra landshluta var meðalleigan lægst á Vestfjörðum og næstlægst á Norðurlandi eystra og Austurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert