Íslenskt app sem minnir á hreyfingu

Hægt er að stilla appið þannig að það minni mann …
Hægt er að stilla appið þannig að það minni mann á að taka örhlé á til dæmis fimmtán mínútna fresti og/eða lengri hlé á klukkustundarfresti.

Nýtt íslenskt app fyrir þá sem sitja mikið langtímum saman við vinnu er komið á App Store. „Hugmyndin að þessu kviknaði þegar ég var í prófum á fyrsta ári í tölvunarfræðinni,“ segir Bragi Bergþórsson, höfundur appsins Brken, en hann útskrifaðist með B.Sc.-próf í tölvunarfræði frá HR í vor.

„Þá sátum við lengi við að læra. Ég rakst á þetta hugtak, „micro break“. Ég píndi strákana, en við vorum átta saman í herbergi, til að standa upp á korters fresti, teygja úr sér og skipta um fókus, og fara síðan í fimm mínútna göngutúr á klukkutíma fresti. Þetta gafst ótrúlega vel. Við fundum greinilegan mun,“ segir Bragi, sem fann bæði líkamlegan og andlegan mun á sjálfum sér með því að taka þessi stuttu hlé. „Manni líður ekki eins og maður hafi setið allan daginn þótt maður hafi gert mikið af því.“

Það var líka ákveðin áskorun fyrir hann að hanna app. „Mig langaði að prófa þetta ferli frá a til ö. Áður hafði ég gert hluta hér og þar sem hluti af teymi. Mig langaði að prófa að gera þetta einn, hönnun, skoða alla virkni, útgáfuferla og sjá til þess að þetta kæmist alla leiðina inn á App Store,“ segir hann. Það tókst, en appið verður innan tíðar fáanlegt fyrir Android-síma.

Hægt er að stilla appið þannig að það minni mann á að taka örhlé á til dæmis fimmtán mínútna fresti og/eða lengri hlé á klukkustundarfresti. En hvað felst í örhléi? „Það snýst bara um að standa upp í fimmtán sekúndur og teygja úr sér. Það skiptir líka miklu máli að breyta um fókus. Maður er alltaf að rýna á tölvuskjá eða skrifblokk, eitthvað sem er nálægt. Það er því gott að líta aðeins frá sér og æfa augun í leiðinni.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert