Tjaldbúðirnar jafnast á við stærð Egilshallar

Fjóra síðustu daga mótsins munu um 5.000 þátttakendur halda til …
Fjóra síðustu daga mótsins munu um 5.000 þátttakendur halda til á Úlfljótsvatni í miklum tjaldbúðum sem þar er verið að koma upp.

Um helgina taka að rísa risavaxnar tjaldbúðir á Úlfljótsvatni vegna alþjóðlegs skátamóts sem þar fer fram á næstunni. Meira en 230 tjöld verða sett upp fyrir þá 4.000 skáta og 1.000 sjálfboðaliða sem mæta á mótið. Að auki koma skátarnir með sín eigin íverutjöld. Í fréttatilkynningu segir að um sé að ræða stærstu tjaldbúðir Íslandssögunnar. 

„Við ætlum að byggja upp alþjóðlegt samfélag á Úlfljótsvatni sem verður tíunda stærsta ”sveitarfélag” landsins þessa mótsdaga,“ er haft eftir Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta, í fréttatilkynningunni. Allur tjaldbúnaður mótsins er um 30.000 fermetrar og jafnast á við heildarfermetra Egilshallar.

 Samfélagið mun byggjast á 10 manna flokkum með hámarki tveimur þátttakendum frá hverri þjóð. Þátttakendur koma frá 106 löndum og eru á aldrinum 18-25 ára. Hermann segir að ekki sé hægt að treysta á íslenska veðráttu og því verði  að vera við öllu búinn. Í þjónustutjöldunum verða 120 eldavélar til þess að elda mat í 400 pottum. Sjálfbærni er lykilorð á mótinu og munu skátarnir elda sér mat sinn sjálfir. Má því ætla að þar muni blandast saman margskonar ilmur af mat frá öllum heimshornum. 

Skátamótið hefst í Laugardalshöll á þriðjudagsmorguninn 25. júlí en síðan dreifast skátarnir víða um land og munu m.a. stunda sjálfboðastörf á 11 stöðum. Fjóra síðustu daga mótsins dvelur allur hópurinn, alls um 5000 manns, í tjaldbúðum á Úlfljótsvatni. 

 „Það krefst mikils undirbúnings að koma þessum stóru tjaldbúðum upp á Úlfljótsvatni,” segir Hermann. Hann segir að undirbúningur á svæðinu standi nú sem hæst en mennta- og menningarmálaráðuneytið lagði um 40 milljónir króna til verksins. Þessi vinna mun nýtast íslenskum skátum og þeim fjölskyldum sem nýta sér tjaldsvæðið um ókomna tíð, segir framkvæmdastjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert