Glæfraakstur í umferðarþunga

Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan á Norðurlandi vestra sektaði 69 manns fyrir of hraðan akstur um helgina. Sá sem ók hraðast mældist á 147 km/klst. Þung umferð var um helgina fyrir norðan enda veðrið með eindæmum gott þar. 

„Við viljum brýna fyrir fólki að sýna varkárni og umburðalyndi í umferðinni,“ segir Bjarnþóra María Pálsdóttir, lögreglukona hjá lögregluumdæminu á Norðurlandi vestra. Hún ítrekar að nú þegar margir eru í fríi í júlí og ferðist um landið með ferðavagna aki fólk gætilega því umferðarálagið eykst til muna þegar þeir eru komnir á vegina. 

Þegar umferðin er á 80 og 90 km/klst þýðir ekkert að taka fram úr og stunda glæfraakstur, segir Bjarnþóra og tekur fram að Íslendingar geti helst tekið þetta til sín því þeir hafi stundað ógætilegan akstur um helgina. 

„Við viljum öll koma heil heim, er það ekki?“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert