„Það stoppar ekki síminn hjá okkur“

Sjónvarpsútsendingar um örbylgjuloftnet heyra nú sögunni til.
Sjónvarpsútsendingar um örbylgjuloftnet heyra nú sögunni til. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það stoppar ekki síminn hjá okkur,“ segir Magnús E. Eyjólfsson, sölu- og markaðsstjóri Feris og Elnet-tækni ehf., í samtali við mbl.is.  „Við höfum haft nóg að gera síðustu tvo mánuði við að afgreiða loftnet. Það er náttúrulega langt síðan það var tekin ákvörðun um að slökkva á örbylgjunni, það var vitað að sú tíðni væri ekki eilíf.“

Í júní hófst Vodafone handa við að loka endurvarpsstöð sem hingað til hafði dreift sjónvarpsútsendingum yfir örbylgju á höfuðborgarsvæðinu. Örbylgjusjónvarp á höfuðborgarsvæðinu hefur verið tekið niður í áföngum á höfuðborgarsvæðinu síðan 6. júní en síðasti sendirinn var tekinn úr sambandi 24. júlí.

Á það eingöngu við um sjónvarpsútsendingar um örbylgjuloftnet en hægt er þó að skipta því út og fá sjónvarpsútsendingar þess í stað í gegnum UHF-loftnet. Flestir landsmenn sjá þó sjónvarpsútsendingar í gegnum netið í gegnum áskriftarleiðir síma- og fjarskiptafyrirtækja. Þeir notendur sem hins vegar ætla áfram að taka við útsendingum um loftnet þurfa UHF-loftnet í stað örbylgjuloftnets.

Magnús kveðst undrandi á því að svo virðist sem fjarskiptafyrirtæki kynni þessa leið takmarkað fyrir viðskiptavinum sínum og reyni oftar en ekki að beina þeim frekar í kostnaðarsamar áskriftarleiðir sem viðskiptavinir hafi jafnvel ekki not fyrir.

Boðin áskrift á tæpar 11.000 kr. á mánuði

„Það eru gríðarlega margir sem eru að nota náttúrulega þessa frábæru tækni, sem er loftnet, vegna þess að þú þarft ekki að vera að borga fyrir einhverja þjónustu frá einhverju símafyrirtæki,“ segir Magnús. „Fólkið sem vill bara horfa á Rúv, kannski í mesta lagi Rúv+ og Rúv-íþróttir, er ekkert að leita eftir einhverju öðru og þetta er bara ótrúlegt.“

Magnús segir marga hafa litla sem enga þörf fyrir netáskriftarleiðir …
Magnús segir marga hafa litla sem enga þörf fyrir netáskriftarleiðir símafyrirtækja. Einkum eldra fólk vilji bara geta horft á Rúv. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nefnir hann dæmi um konu á tíræðisaldri sem hafi leitað eftir þjónustu fyrirtækisins í gær; hún hafi aldrei notað netið en til þessa hafi hún verið með sjónvarp í gegnum örbylgjuloftnet. Þegar konan hafði leitað til símafyrirtækisins hafi henni verið boðin áskrift fyrir tæpar 11.000 krónur á mánuði að sögn Magnúsar en innifalið í því væri þjónusta sem hún þyrfti ekki á að halda.

„Þessi kona hefur ekkert þurft að borga, hún gat bara stungið loftnetinu í sjónvarpið í örbylgjunni og horft á Rúv. Og með því að setja upp UHF-loftnet í staðinn fyrir örbylgjuloftnetið þá getur þessi kona náttúrlega fengið Rúv í sjónvarpið sitt áfram og þetta vill enginn hjá neinu símafélagi segja henni,“ segir Magnús.

Unga fólkið streymi í gegnum netið

Á þetta helst við fólk um það bil frá aldrinum 45 ára og eldra að sögn Magnúsar en sjaldgæfara sé að yngra fólkið hafi áhyggjur af þessu. Það sé líklegra til að streyma sjónvarpsefni í gegnum netið eftir hinum ýmsu leiðum.

Magnús segir lítið mál að fá rafeindavirkja til að skipta um loftnet, aðgerðin geti tekið allt niður í eina klukkustund og kostnaður við bæði loftnetið og uppsetningu þess geti numið allt frá því sem nemur tveggja mánaða sjónvarps- og netáskrift hjá síma- og fjarskiptafyrirtækjum, en kostnaður er misjafn eftir aðstæðum á hverjum stað. 

Stefnan að ofselja ekki þjónustu

Að sögn Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, kom kippur í sölu sjónvarpsþjónustu Símans þegar lokað var fyrir örbylgjuútsendingarnar í sumar. Á þeim tíma hafi fyrirtækið einnig verið að kynna 4K-myndlykla og „myndlykilinn með í fríið“ sem skýrir líka kippinn að sögn Gunnhildar. Einnig hafi þó hópur fólks sem áður hafði örbylgjuútsendingar ákveðið að fá sér gagnvirka sjónvarpsþjónustu í stað þeirrar gömlu.

„Stefnan Símans er að ofselja ekki þjónustu sem fólk hefur ekki þörf fyrir, þar sem það veldur aðeins óánægju og vandræðum. Við hjá Símanum ákváðum því við þessi tímamót að kynna fólki möguleikana og muninn á gagnvirku sjónvarpi og móttöku um loftnet og hvað þyrfti til þess að ná sjónvarpsútsendingum aftur, þannig að fólk gæti metið hvor leiðin hentaði því betur,“ segir Gunnhildur í samtali við mbl.is.

„Við lögðum upp með að benda á að þótt startkostnaðurinn gæti verið mikill við að ná aftur útsendingunum um loftnet væri það fljótt að borga sig fyrir þá sem ekki búa á nettengdu heimili fyrir og hafa ekki áhuga á því.“

Flestir þegar með myndlykla frá Vodafone

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Bára Mjöll Þórðardóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone, að viðskiptavinir sem hafi þurft að gera ráðstafanir vegna niðurtöku örbylgjukerfisins hafi valið sér annaðhvort UHF eða IPTV allt eftir þörfum hvers og eins.

Hún segir að ekki sé hægt að tala um aukningu í áskriftum þar sem að í langflestum tilvikum hafi aðilar þegar verið með myndlykla frá Vodafone fyrir breytingarnar. Á vefsíðu Vodafone sé hægt að fara yfir þá möguleika sem í boði eru og reynt sé að finna lausnir sem henta aðstæðum og áhuga viðskiptavina hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert