Parísarhjólið fékk neikvæða umsögn

Parísarhjólið London Eye var fyrirmynd Parísarhjólsins sem aldrei verður.
Parísarhjólið London Eye var fyrirmynd Parísarhjólsins sem aldrei verður. AFP

Hugmynd þess efnis að reist yrði Parísarhjól í Reykjavík, eða útsýnishjól eins og það er kallað í fundarferð Reykjavíkurborgar, fékk neikvæða umsögn á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær.

Fyrirtækið Reykjavik Eye Projects hafði í vor farið þess á leið við borgaryfirvöld að þau úthlutuðu fyrirtækinu lóð undir Parísarhjól. Hjólið myndi kallast Reykjavík Eye og ætti að líkjast London Eye hjólinu í höfuðborg Bretlands.

Borgarstjóra var sent formlegt erindi vegna málsins í byrjun maí og var verkefnið þá kynnt. Nokkrar staðsetningar komu til greina; Örfirisey, Laugardalur, Laugarnes og Öskjuhlíð.

Í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs frá því í byrjun júlí kemur fram að almennt séð leggist skrifstofa borgarhönnuðar gegn uppbyggingu útsýnishjólsins í Reykjavík. Í rökstuðningi skrifstofunnar segir að hjólið muni í umfangi sínu hafa mikil og neikvæð sjónræn áhrif á borgarlandslagið.

„Ekki er tekið jákvætt í þær staðsetningar sem nefndar eru í erindi og koma þær ekki til greina fyrir þá starfsemi sem óskað er eftir m.a. útfrá skipulags- og umhverfislegum þáttum, auk óvissuþáttar um ásýndar og útsýni,“ segir meðal annars í niðurstöðu umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert