Flestir inni fyrir kynferðis- og fíkniefnabrot

Fleistir þeirra fanga sem nú afplána refsidóma sitja inni fyrir …
Fleistir þeirra fanga sem nú afplána refsidóma sitja inni fyrir fíkniefnabrot, næst flestir fyrir kynferðisafbrot. mbl.is/Brynjar Gauti

Alls eru nú 152 fangar í afplánun hér á landi. Þar af afplána 107 einstaklingar í fangelsum og 45 utan fangelsa þar sem afplánun fer ýmist fram á áfangaheimili eða með rafrænu eftirliti. Samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun afplána flestir fangar dóma fyrir fíkniefnabrot og næstflestir fyrir kynferðisafbrot.

Morgunblaðið og mbl.is hafa að undanförnu fjallað um langa biðlista eftir afplánun í fangelsum hér á landi. Á síðasta ári fyrnd­ust 34 dóm­ar vegna þess að ekki tókst að koma viðkom­andi ein­stak­ling­um í afplán­un refs­ing­ar. Það sem af er þessu ári hafa 17 dóm­ar fyrnst og bíða nú um 560 dómþolar eftir að vera boðaðir í afplánun vegna samtals 812 dóma.

Hlutfall dóma á boðunarlista endurspeglar ekki hlutfall þeirra sem sitja inni fyrir sambærileg brot. Fangelsismálayfirvöld forgangsraða þegar einstaklingar eru boðaðir í afplánun með þeim hætti að þeir sem gerst hafa sekir um alvarlegustu brotin eru fyrst boðaðir í afplánun.

43 inni fyrir fíkniefnabrot og 34 fyrir kynferðisbrot

„Það er mjög mikilvægt að við getum sýnt fram á það að við séum raunverulega að taka hættulegasta fólkið inn og þá sem eru dæmdir fyrir alvarlegustu afbrotin,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is. Hafa ber í huga að fjöldi dóma á boðunarlista er meiri en fjöldi þeirra einstaklinga sem bíða þess að hefja afplánun.


Alls afplána 43 einstaklingar nú dóma fyrir fíkniefnabrot eða 28,3% allra fanga. Af þessum 43 afplána 18 manns dóma fyrir meiriháttar fíkniefnabrot sbr. 173. grein almennra hegningarlaga og 25 afplána dóma fyrir minniháttar fíkniefnabrot sbr. lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. „Þetta er tvískipt. Þetta eru annars vegar sérlög um fíkniefnamál og hins vegar tiltekið ákvæði í almennum hegningarlögum,“ útskýrir Páll.

Næstflestir afplána dóma fyrir kynferðisafbrot, alls 34 einstaklingar eða 22,4% allra fanga í afplánun. Á sama tíma eru 2% þeirra dóma sem eru á boðunarlista eftir afplánun vegna kynferðisafbrota. Þá afplána 17% fanga dóma fyrir þjófnað og auðgunarbrot, 11% fyrir ofbeldisbrot, 10% fyrir manndráp eða tilraun til manndráps og 7% fyrir umferðalagabrot. Loks afplána 5% fanga dóma fyrir önnur brot.

Fæstir á boðunarlista fyrir ofbeldis- og kynferðisafbrot

Nú bíða um 560 dómþolar eftir að vera boðaðir í afplánun vegna samtals 812 dóma. Þegar rýnt er tegundir afbrota í þeim 812 dómum sem nú eru á boðunarlista kemur í ljós að yfir helmingur dóma er vegna umferðarlagabrota.

„Þetta eru einstaklingar sem eru með fleiri en einn dóm. Þess vegna getur verið svolítið snúið að telja þetta saman því að menn eru stundum dæmdir fyrir fleiri en eitt brot, fleiri en eina tegund. Sumir eru til dæmis bæði með umferðalagabrot og fíkniefnalagabrot,“ útskýrir Páll.

Alls eru 55% dóma sem nú eru á boðunarlista vegna umferðarlagabrota, 22% vegna fíkniefnabrota, 12% dóma eru fyrir þjófnað og auðgunarbrot, 5% fyrir ofbeldisbrot og 2% fyrir kynferðisafbrot. Þá eru engir dómar á boðunarlista fyrir manndráp eða tilraun til manndráps og 4% á eru vegna annarra brota. „Það er verið að forgangsraða, við erum að vanda okkur,“ segir Páll að lokum.

Fangelsið Litla-Hraun.
Fangelsið Litla-Hraun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert