Nafnið réðst af fyrsta marki á EM

Magnús og Kristín ásamt dætrum sínum tveimur. Sú yngri fékk …
Magnús og Kristín ásamt dætrum sínum tveimur. Sú yngri fékk nafnið Fanndís Mist í dag.

Magnús Yngvi Einarsson og Kristín Dögg Eysteinsdóttir fóru heldur óhefðbundnar leiðir við að ákveða nafn dóttur sinnar sem fæddist 16. júlí síðastliðinn, en nafn hennar réðst af því hvaða íslenska landsliðskona í knattspyrnu skoraði fyrsta markið á Evrópumótinu í síðasta mánuði.

Stúlkan var í gær skírð Fanndís Mist, í höfuðið á Fanndísi Friðriksdóttur sem skoraði fyrsta mark íslenska liðsins á mótinu. Magnús skrifaði færslu um málið á Facebook-síðu sína í dag. Þar segir hann upphaf sögunnar mega rekja til þess þegar hann og Kristín ákváðu að bjóða tengdaforeldrum hans í grill til að horfa á leik Íslands og Frakklands.

Barnsmóðirin tók vel í hugmyndina

„Ég og pabbi Kristínar erum miklir fótboltaáhugamenn,“ skrifar Magnús og bætir við að því missi þeir ekki af stórleikjum sem þessum. Fyrir leikinn hafi þeir svo farið að ræða hvað ætti að skíra litlu Magnúsdóttur.

„Eftir miklar vangaveltur hét ég því við hann að skíra hana í höfuð á þeirri stelpu í íslenska landsliðinu sem myndi skora fyrsta markið á EM,“ skrifar Magnús og bætir við að það fyndna hafi verið að Kristín tók vel í hugmyndina.

Í fyrsta leiknum kom ekkert mark og segir Magnús fjölskylduna því hafa beðið eftir næsta leik til að vita hvaða nafn stúlkan myndi fá.

Fanndís ánægð með nafnið

„Þá var loksins komið að leiknum á móti Sviss en þá loksins kom fyrsta markið hjá Íslandi og var það Fanndís Friðriksdóttir sem skoraði. Þar með var það komið,“ skrifar Magnús. Stúlkan var kölluð Fanndís út kvöldið, „og síðan ekki söguna meir nema hjá okkur Kristínu sem fannst þetta virkilega falleg nafn eftir allt saman“.

Segir hann tengdaföður sinn eflaust hafa haldið að hann myndi ekki standa við stóru orðin, en í gær hafi hann hins vegar fengið staðfestingu þegar stúlkan fékk nafnið Fanndís Mist. „Þar með má segja að hún hafi fengið nafnið sitt á 33. mínútu í leik Íslands og Sviss 22. júlí.“

Ljóst er að Fanndísi Friðriksdóttur hefur verið bent á pistil Magnúsar, þar sem hún skrifar athugasemd við færsluna. „Vá, en skemmtilegt. Innilega til hamingju með stelpuna ykkar og frábæra nafnið sem henni hefur verið gefið. Ótrúlega skemmtilegt,“ skrifar hún og ljóst er að allir eru alsælir með nafnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert