11 mánuðir fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp 11 mánaða fangelsisdóm yfir manni á fimmtugsaldri fyrir ítrekuð umferðarlagabrot og brot á fíkniefnalögum. Þá verður maðurinn sviptur ökuréttindum ævilangt og fíkniefni sem maðurinn hafði í fórum sínum gerð upptæk.

Alls var maðurinn ákærður fyrir sex umferðarlagabrot, ýmist fyrir of hraðan akstur, akstur án ökuréttinda og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá var maðurinn í eitt skiptið tekinn fyrir akstur undir áhrifum með 1,03 grömm af marijúana og 0,68 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni í fórum sínum.

Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil en árið 2016 var hann dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot. Við ákvörðun refsingar var tekið mið af því að ákærði var í fjórða sinn fundinn sekur um að aka óhæfur til að stjórna ökutæki og í fimmta sinn fyrir að aka sviptur ökuréttindum. Maðurinn játaði brot sín en samtals ber honum að greiða tæpar 390 þúsund krónur í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert