Dæmdur fyrir líkamsárás gegn eiginkonu

Karlmaður á sjötugsaldri var dæmdur í 90 daga skilorðsbundið fangelsi …
Karlmaður á sjötugsaldri var dæmdur í 90 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás gegn eiginkonu sinni mbl.is/G.Rúnar

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni á sjötugsaldri sem ákærður var fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 6. desember 2014 ráðist gegn eiginkonu sinni á heimili þeirra og slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, bak og brjóstkassa.

Maðurinn var dæmdur í 90 daga fangelsi en fullnustu refsingarinnar skal frestað og fellur niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi maðurinn skilorð. Þá var hann dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað og málsvarnarlaun.

Eiginkonan lýsti andstöðu við málshöfðun

Við ákvörðun refsingarinnar í málinu var ekki litið til yfirlýsingar eiginkonunnar, brotaþolans, um andstöðu sína við höfðun málsins í ljósi þess að ákæruvaldi mat það sem svo að almannahagsmunir krefðust þess að málið yrði höfðað. 

Samkvæmt skýrslu lögreglu var óskað eftir aðstoð hennar við bensínstöð þar sem statt var fólk sem hafði flúið af heimili sínu vegna heimilisofbeldis en þar hitti lögregla fyrir dóttur og tengdason hjónanna sem höfðu flúið út þar sem maðurinn var ölvaður og hefði ráðist á þau, en það væri vani á föstudögum að hann væri með læti vegna ölvunar. Upplýsti dóttirin að móðir hennar væri á heimilinu og bað lögreglu um að athuga hvort ekki væri í lagi með hana. Á sama tíma barst lögreglu tilkynning þar sem þess var óskað að lögregla færi að heimilinu þar sem eiginkonunni væri mikið niðri fyrir og virst mjög hrædd. Hún sagði að eiginmaður hennar hefði ráðist á hana og meðan á barsmíðunum hefði staðið hefði hann sagst ætla að drepa hana. Sjáanlegir áverkar voru á konunni en hún var marin, bólgin á augum og það blæddi úr augnbrún.

Þegar lögregla kom á svæðið sat maðurinn inni í stofu og skyrta hans var blóðug og fráhneppt að neðan. Hann var greininga undir áhrifum áfengis og var færður á lögreglustöð en konan var flutt á slysadeild og lögð þar inn vegna hugsanlegrar heilablæðingar.

Maðurinn neitaði að tjá sig um málið en við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi var haft samband við dóttur hans sem var stödd erlendis og skoraðist undan því að gefa skýrslu. Þá mætti tengdasonurinn fyrir dóm en skoraðist jafnframt undan því að gefa skýrslu.

Eiginkonan mætti ekki fyrir héraðsdóm en haft var símasamband við hana að ósk ákæruvaldsins til staðfestingar á því að hún hygðist ekki gefa skýrslu í málinu. Skýrði hún þá frá því að hún skoraðist undan því að gefa skýrslu og stæði við skýrslu sína hjá lögreglu. 

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafði konan gert grein fyrir því að hún vildi ekki leggja fram kæru þar sem þau hjónin væru að vinna í sínum málum. Umrætt kvöld hefði hún verið á jólahlaðborði og eiginmaður hennar hefði verið orðinn ölvaður og erfiður. Hann hefði ráðist að henni og látið höggin dynja á andliti hennar og höfði. 

Maðurinn sem var sextugur þegar líkamsárásin átti sér stað hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot en við ákvörðun refsingar var litið til þess að brotin beindust gegn eiginkonu hans og að um alvarlega líkamsárás væri að ræða. Með hliðsjón af því þótti refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga skilorðsbundið. 

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert