Ítrekar fyrirspurn um yfirhylmingu kynferðisbrota

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur ítrekað fyrirspurn sína til dómsmálaráðherra um viðurlög við því að hylma yfir kynferðisafbrot, en 15 virkra daga lögbundinn frestur til að svara fyrirspurninni er liðinn.

Í greinargerð með fyrirspurn sinni vísar Jón Þór til leiðarvísis Vatíkansins til biskupa kaþólsku kirkjunnar, þar sem biskupum er fyrirskipað að hylma yfir kynferðisbrot, ella eigi þeir á hættu að vera vísað úr kirkjunni.

Spurningarnar sem Jón Þór ber upp í fyrirspurninni eru eftirfarandi:

  • Hvaða lög eða reglur brýtur biskup ef hann fylgir fyrirmælum Vatíkansins varðandi kynferðisafbrot presta kirkjunnar, m.a. gagnvart börnum, og hvaða lög hefur kaþólska kirkjan brotið með því að gefa slík fyrirmæli og hóta brottvísun úr starfi sé þeim ekki fylgt? 
  • Eru fyrirmæli Vatíkansins næg ástæða fyrir lögreglu eða saksóknara til að rannsaka málið frekar og ákæra? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að rannsakaður sé sterkur grunur um skipulagða yfirhylmingu kynferðisafbrota gegn börnum?
  • Er það brot á lögum eða reglum sem gilda fyrir einstaklinga að hylma yfir kynferðisafbrot? Eru undanþágur frá þeim ákvæðum og ef svo er, hverjar?
  • Er það brot á lögum eða reglum sem gilda um trúfélög, félagasamtök, fyrirtæki eða stofnanir að fyrirskipa félagsmönnum sínum eða starfsmönnum að hylma yfir kynferðisafbrot? Ef ekki, hvað ef þeim fyrirskipunum fylgir hótun um mögulega brottvísun úr starfi? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að koma í veg fyrir slík fyrirmæli og hótanir?
  • Hver eru viðurlög við áðurnefndum brotum á lögum og reglum og hver finnst ráðherra að réttmæt viðurlög ættu að vera? 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert