Önnur vél send til að sækja farþega

Senda á aðra vél til að sækja farþega til Alicante.
Senda á aðra vél til að sækja farþega til Alicante. mbl.is

Ákveðið hefur verið að senda aðra flugvél til Alicante á Spáni til að sækja farþega Primera Air sem voru um borð í vél með flugnúmerið 6F108, en henni var snúið til baka til flugvallar skömmu eftir flugtak um miðjan dag í dag. Viðvörunarljós sem kviknuðu bentu til bilunar í öðrum hreyfli vélarinnar og í samræmi við vinnureglur var ákveðið að snúa vélinni við og lenda henni aftur í Alicante.

Flugvél­in lenti aftur í Alicante um hálffjögurleytið í dag.  Í fréttatilkynningu frá Primera Air segir að tæknimenn hafi skoðað vélina og hafi nú staðfest bilun í hreyflinum.  Búið er að óska eftir varahlutum til viðgerða, en um er að ræða olíusíu í vinstri hreyfli. Ljóst er hins vegar að viðgerð muni ekki ljúka áður en kemur til lögbundins hvíldartíma áhafnar og því hefur verið ákveðið að senda aðra flugvél til Alicante að sækja farþega.

Farþegum flugvélarinnar verður ekið aftur til Alicante frá flugvellinum, þar sem þeim er boðin gisting á hóteli ásamt kvöldverði.  Áætlað er að farþegar fljúgi til Keflavíkur kl. 05:00 að staðartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert