Vél Primera snúið við vegna bilunar

Varúðarljós kviknuðu skömmu eftir flugtak sem bentu til bilunar í …
Varúðarljós kviknuðu skömmu eftir flugtak sem bentu til bilunar í hreyfli.

Flugvél Primera Air Nordic var fyrr í dag snúið til baka til Alicante á Spáni skömmu eftir flugtak vegna tæknibilunar.

Vélin, sem hefur flugnúmerið 6F108, var á leið til Keflavikur frá Alicante og skömmu eftir flugtak kviknuðu varúðarljós sem bentu til bilunar í öðrum hreyfli vélarinnar. Í samræmi við vinnureglur var ákveðið að snúa vélinni við og lenda henni aftur í Alicante. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Primera air.

Flugvél­in lenti kl 15:30 að staðartíma í Alicante. Tæknimenn eru nú að skoða vélina og gert er ráð fyrir að hún fari frá Alicante með farþegana til Keflavíkur eftir skoðun. Farþegar bíða nú í flugstöðinni eftir frekari fréttum en tekið er fram að bæði farþegar og áhöfn hafi það gott.

Í tilkynningunni segir að öryggi farþega Primera Air sé alltaf í fyrirrúmi og því hafi verið ákveðið að snúa vélinni við. Flugmenn vélarinnar séu þjálfaðir til að bregðast við í aðstæðum sem þessum og lendingin hafi verið í samræmi við verkferla félagsins í tilvikum sem þessum.

Uppfært 17:30

Í fréttatilkynningu sem Primera Air sendi frá sér kemur fram að ákveðið hafi verið að senda aðra vél út að sækja farþegana. Þeim hafi nú verið ekið aftur til Alicante frá flugvellinum, þar sem þeim verði boðin gisting á hóteli ásamt kvöldverði.  Áætlað er að farþegar fljúgi til Keflavíkur í fyrramálið kl. 05:00 að staðartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert