Bálhvasst í hviðum

Veðurstofa Íslands

Mjög hvasst er í hviðum á Reykjanesbraut, Kjalarnesi, við Hafnarfjall, á norðanverðu Snæfellsnesi og undir Eyjafjöllum til kvölds, en í Mýrdal og Öræfum á morgun. Hviður gætu farið yfir 30 m/s. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Búast má við talsverðri rigningu og vatnavöxtum á Suðausturlandi, austan Öræfa og á Austfjörðum á morgun.

„Samspil smálægða sunnan og vestan við landið og hæðarhryggs fyrir austan veldur því að hvass vindstrengur liggur með suður- og vesturströndinni. Dálítil væta fylgir lægðaganginum, einkum sunnan- og vestanlands, en annars verður lengst af þurrt og jafnvel bjart veður. 

Dregur heldur úr vindi í kvöld og nótt, en á morgun leggst í allhvassa eða hvassa austanátt og rignir talsvert suðaustanlands. Áfram milt veður fram að helgi, en þá lægir síðan og léttir víða til, en kólnar jafnframt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustlæg átt, 10-20 m/s, hvassast við SV-ströndina. Dálítil væta með köflum, en þurrt á N- og A-landi. Dregur úr vindi í kvöld. 
Austan 13-20 á morgun og víða talsverð rigning, hvassast á annesjum, en hægara og úrkomulítið NV-til. Hiti 3 til 10 stig yfir daginn, hlýjast syðst.

Á fimmtudag:

Austan 8-15 m/s, en 15-20 með suðurströndinni. Rigning S- og A-lands, en annars bjart með köflum. Hiti 3 til 10 stig, mildast S-lands. 

Á föstudag:
Austan 13-20 m/s NA-lands, en annars suðvestlæg átt, 8-15, hvassast á annesjum. Víða talsverð rigning, en þurrt að kalla NV-til. Lægir og styttir upp þegar líður á daginn, fyrst syðra. Hiti 3 til 9 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á laugardag:
Hæg breytileg átt og skýjað með köflum, en dálítil væta austast. Kólnandi veður. 

Á sunnudag:
Vaxandi austlæg átt og fer að rigna S- og A-til, annars víða bjartviðri. Fremur svalt í veðri. 

Á mánudag og þriðjudag:
Útlit fyrir austanáttir með vætu víða á landinu, síst þó N-lands og heldur hlýnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert