Skógrækt gæti orðið öflug atvinnugrein

Ingvar P. Guðbjörnsson, verkefnisstjóri hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi.
Ingvar P. Guðbjörnsson, verkefnisstjóri hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Félag skógareigenda á Suðurlandi hyggst á morgun kynna niðurstöður af vinnu síðustu mánaða við að kanna grundvöll fyrir því að koma á fót vinnslu skógarafurða úr sunnlenskum skógum. Verkefnið fékk styrk sem áhersluverkefni í sóknaráætlun Suðurlands í gegnum Samtök sunnlenskra sveitarfélaga á þessu ári og liggja grunnniðurstöður fyrir.

„Með þessu verður til öflug atvinnugrein á Suðurlandi. Verkefnið styður við byggð og ýtir undir enn frekari bindingu kolefnis með aukinni nytjaskógrækt,“ segir Ingvar P. Guðbjörnsson, verkefnisstjóri hjá félaginu. „Þetta hefur gengið mun betur en ég þorði að vona í upphafi og niðurstöður koma skemmtilega á óvart. Nú er rétti tíminn að mínu mati til að hefja þessa starfsemi. Það er búið að rækta nytjaskóga á Suðurlandi í þrjá áratugi og mikilvægt að fara að grisja elstu skógana markvisst til að hámarka afurðir úr þeim.“

Fundurinn fer fram í Þingborg í Flóa klukkan 10 í fyrramálið þar sem Ingvar mun fara yfir niðurstöður vinnunnar auk þes sem næstu skref verða kynnt og rædd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert