106 milljóna skattabrot á fimm árum

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært manninn.
Embætti héraðssaksóknara hefur ákært manninn. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir meint skattabrot upp á samtals um 106 milljónir króna á árunum 2008 til 2012. Tengjast brotin fimm einkahlutafélögum sem maðurinn stýrði.

Maðurinn er ásakaður um að hafa ekki greitt um 47 milljónir í virðisaukaskatt og tekjuskatt fyrirtækjanna á umræddu tímabili. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki gefið upp eigin tekjur frá félögunum upp á 134,6 milljónir á árunum 2009 til 2012, en vangreiddur tekjuskattur og útsvar vegna þess nemur um 58,6 milljónum.

Öll félögin eru nú afskráð eða gjaldþrota og er maðurinn ákærður í öllum tilfellum fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn félaganna.

Í tengslum við fyrsta félagið er maðurinn ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á tæplega 8 milljóna virðisaukaskatti árið 2012. Hjá öðru félagi er hann ákærður fyrir að hafa ekki greitt 11,3 milljónir króna í virðisaukaskatt árin 2010 og 2011.

Hjá þriðja félaginu er maðurinn ákærður fyrir vangreiddan tekjuskatt upp á 461 þúsund árið 2012 og 8,5 milljónir í ógreiddan virðisaukaskatt á árunum 2011 til 2014.

Vangreiddur tekjuskattur hjá fjórða félaginu er 2,5 milljónir og nær yfir árin 2008 til 2010, en vangreiddur virðisaukaskattur hjá sama félagi yfir þessi þrjú ár nemur 9,8 milljónum. Vegna fimmta félagsins er maðurinn ákærður fyrir að hafa ekki greitt 6,7 milljónir í virðisaukaskatt árið 2012.

Að lokum er maðurinn ákærður sem fyrr segir fyrir að hafa vantalið fram tekjur sínar frá félögunum fimm upp á 134,6 milljónir á þremur árum. Voru vantaldar tekjur mestar árið 2012 þegar þær náðu tæplega 66 milljónum króna. Er áætlaður vangreiddur skattur vegna þessa 58,6 milljónir og brot mannsins þar með í heild 106 milljónir.

Maðurinn hefur áður verið til umfjöllunar hjá fjölmiðlum, meðal annars fyrir að hafa fljótlega eftir hrun bankakerfisins boðið fólki sem var í miklum greiðsluerfiðleikum að taka á sig skuldir óskyldra aðila og fara svo í gjaldþrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert