Enginn enn verið ráðinn

mbl.is/Hanna

Væntanlega verður tekin ákvörðun um það á næstu dögum hver verði næsti ferðamálastjóri og taki við embættinu um áramótin en eins og mbl.is hefur fjallað um sóttu 23 um starfið og koma af þeim þrír til greina. Málið liggur á borði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu.

Frétt mbl.is: Þrír koma til greina í starfið

Ekki fengust hins vegar upplýsingar frá ráðuneytinu um hvaða þrjá umsækjendur hæfisnefnd taldi hæfasta og valið stendur um. Vefsíðan Túristi.is segir að samkvæmt heimildum hennar sé um að ræða Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, og Skarphéðin Berg Steinarsson sem meðal annars hefur starfað sem framkvæmdastjóri Íshesta, Ferðaskrifstofu Íslands og Iceland Express.

Þórdís fundaði með þeim þremur sem koma til greina í starfið í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert