Aðgengi verði takmarkað við lestarsamgöngur

Gullfoss. Orkumálastjóri leggur til að aðgengi að fjölsóttum og viðkvæmum …
Gullfoss. Orkumálastjóri leggur til að aðgengi að fjölsóttum og viðkvæmum ferðamannastöðum á borð við Gullfoss verði takmarkað við lestarsamgöngur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðni A. Jóhannesson Orkumálastjóri leggur til að aðgengi að fjölsóttum og viðkvæmum ferðamannastöðum verði takmarkað við lestarsamgöngur í jólaerindi sínu til starfsmanna.

Orkumálastjóri kemur víða við í ávarpi sínu, sem birt er á vef Orkustofnunnar og ræðir m.a. þá afstöðu nýrrar ríkistjórnar að leggja áherslu á lagningu jarðstrengja umfram loftlínur. „Það og ákvörðun um að leggja ekki línur yfir hálendið þrengir mjög um  þá valkosti sem fyrir hendi eru til þess að uppfylla hitt markmiðið, þ.e. að tengja saman lykilsvæði raforkukerfisins og stuðla þannig að bættu orkuöryggi og betri nýtingu þeirrar raforkuframleiðslugetu sem er fyrir í landinu,“ segir Guðni í erindi sínu. 

Rafbíla telur hann álitlegan kost og æskilegt að knýja almenningssamgöngur í auknum mæli með þeim orkugjafa. „Það er líka álitlegur möguleiki til þess að vernda fjölsótta og viðkvæma ferðamannastaði að takmarka aðgengið við lestarsamgöngur. T.d væri hægt að hafa lest frá Laugarvatni að Gullfossi og Geysi og takmarka um leið alla umferð og bifreiðastöður við þessa staði. Með þessu móti væri hægt að losna við þá loftmengun og sjónmengun sem hlýst af hömlulausu flæði vélknúinna ökutækja inn á viðkvæm náttúrusvæði.“

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri telur ekki settar nægar hömlur á …
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri telur ekki settar nægar hömlur á notkun díselbíla.

400 kílóvatta dísilorkuver á fjórum hjólum

Díselbílar eru hins vegar nokkuð sem orkumálastjóri telur ekki settar nægar hömlur á og skammast yfir notkun þeirra í íslenskri náttúru.

Það hefur vakið athygli mína sem orkumálastjóra  að flestar nýjar virkjanir og virkjanahugmyndir ganga í gegnum sterk skoðanaskipti og vekja öldu mótmæla og blaðaskrifa. Þær virkjanir sem er næstum algjör lognmolla í kringum eru dísilorkuver! Svo er einnig um dísilvirkjanir á hálendinu sem orkumálastjóri hefur ekkert með að gera.

Á hverjum degi og þó sérstaklega um helgar er stöðugur straumur krammikilla sérútbúinna jeppa, 300 – 400 kílóvatta dísilorkuvera á fjórum hjólum, inn á hálendið. Hver bíll ber með sér um 100 lítra af dísilolíu. T.d. 300 jeppar eru sameiginlega 10 MW orkuver og með tankrými fyrir 30 rúmmetra af dísilolíu.“

Segir Guðni ekkert fjallað um þá í rammaáætlun, né heldur séu þeir háðir umhverfismati. „Þessi dísilorkuver á hjólum eru svo skoluð reglulega, jafnt í jökulvatni sem ferskvatnsám. Það sem þó vekur mesta athygli að eigendur þessara færanlegu dísilvirkjana virðast ekki hafa neinar áhyggjur af þeirri sjónmengun, sem þessum virkjunum þeirra fylgja, heldur taka stoltir myndir af þeim við helstu náttúruperlur Íslands og setja á samfélagsmiðla.“

Bara til að útiloka hagkvæmasta virkjanakostinn

Þá hafi vakið athygli sína þegar gengið var frá frá friðun Þjórsárvera að friðunarmörkin hafi verið teygð „vel niður fyrir neðstu beitarsvæði gæsarinnar að því er virtist í þeim einum tilgangi að útiloka án samanburðar hagkvæmasta virkjanakost á landinu. En svo fylgdi líka Hofsjökull með í pakkanum,“ segir Guðni.

„Mesta hættan sem stafar að Hofsjökli er reyndar frá því góða fólki um allan heim sem sameinast í því að koma í veg fyrir nýtingu vistvænna orkulinda vegna þess að það telur að það sé verið að fórna með óafturkræfum hætti verðmætum, sem af ýmsum gildum ástæðum megi ekki snerta við. Vandinn er sá að eftir því sem þetta fólk eflist í baráttunni og nær betri árangri í að hindra vistvæna orkuframleiðslu þar sem hún er möguleg á jarðarkringlunni, eftir því vex kolefnismagnið í lofthjúpnum hraðar og Hofsjökull, eitt af höfuðdjásnum íslenska hálendisins bráðnar og hverfur. Við ættum kannski að sýna jöklunum okkar svolítið meiri athygli og samúð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert