Dagurinn lengist um fimm mínútur

Sólsetur í janúar austan við Vík í Mýrdal.
Sólsetur í janúar austan við Vík í Mýrdal. mbl.is/Jónas Erlendsson

Sólin hækkar stöðugt á lofti og verður morgundagurinn fimm mínútum lengri en dagurinn í dag, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Vorjafndægur eru 20. mars en þá verður dagurinn um það bil jafnlangur nóttunni hvar sem er á jörðinni og er sólin þá beint yfir miðbaug jarðar. Það gerist tvisvar á ári, annars vegar á tímabilinu 19.-21. mars og aftur 21.-24. september og kallast þá haustjafndægur. 

„Í dag verður rólegheitaveður, en kalt. Líklega dálítil él hér og þar, einkum við sjávarsíðuna. Á morgun blæs ákveðin norðanátt og bætir heldur í ofankomu á norðanverðu landinu, en léttir til syðra. Ekki er að sjá nein hlýindi á næstunni, enda varla við því að búast við upphaf þorra,“ segir enn fremur í hugleiðingum veðurfræðings. 

Spáin fyrir næstu daga

Hæg norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en stöku él við sjávarsíðuna. Norðaustan 8-13 m/s og él eða eftir hádegi, en skýjað með köflum og úrkomulítið SV-til. Norðan og norðaustan 8-15 á morgun, hvassast við ströndina. Snjókoma eða él á N-verðu landinu, en bjartviðri syðra. Frost yfirleitt 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins.

Á föstudag:

Norðæg átt, 8-15 m/s og snjókoma eða él víða á landinu, hvassast NV-til, en hægara og léttskýjað syðra. Dregur úr vindi og ofankomu um kvöldið. Frost 0 til 8 stig, mest inn til landsins. 

Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt, skýjað með köflum og él á stöku stað. Vaxandi A-átt og þykknar upp S-til um kvöldið. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum NA-lands. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir allhvassa austanátt með slyddu eða snjókomu SA-til á landinu, en annars hægara og úrkomulítið. Heldur hlýnandi veður. 

Á mánudag:
Líklega hæg austlæg átt með éljum, einkum austanlands. Kólnar í veðri. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Líkur á hvössum austan- og norðaustanvindum með talsverðri ofankomu, einkum A-til. Svalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert