Minnisvarði kom til bjargar í hálkunni

Minnisvarðinn um Þorbjörn Arnoddsson kom ökumanni bílsins og farþegunum mögulega …
Minnisvarðinn um Þorbjörn Arnoddsson kom ökumanni bílsins og farþegunum mögulega til bjargar, en annars hefðu þau getað steypst fram af útsýnisstaðnum niður í Skessubotna. Ljósmynd/Sigrún Guðjónsdóttir

Ökumaður bifreiðar missti stjórn á bifreið sinni í hálku á veginum við Neðri-Staf á leiðinni til Seyðisfjarðar í gær með þeim afleiðingum að bifreiðin endaði á minnisvarða sem stendur í beygjunni við veginn.

Einn slasaðist lítillega en fjórir voru í bifreiðinni. Greint er frá atvikinu á vef Austurfrétta þar sem haft er eftir lögreglunni á Egilsstöðum að bifreiðin hafi runnið út af veginum í hálku á bílastæði, en lent þar í enn meiri hálku og skautað þaðan á minnisvarðann.

Segja má að minnisvarðinn hafi komið fólkinu til bjargar, ef bifreiðin hefði runnið mikið lengra hefði hún getað farið fram af útsýnisstaðnum niður í Skessubotna.

Minnisvarðinn umtalaði var reistur árið 1983 til minningar um Þorbjörn Arnoddsson, bifreiðarstjóra á Seyðisfirði. Hann rauf vetrareinangrun bæjarins veturinn 1952-53 með því að hefja snjóbílaakstur yfir Fjarðarheiði. Þorbjörn var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1975 fyrir brautryðjandastörf á sviði samgöngumála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert